Kristinn ávarpaði mótmælendur í London

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, ávarpar mótmælendur fyrir utan dómshúsið.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, ávarpar mótmælendur fyrir utan dómshúsið. AFP

Bandaríkin hafa áfrýjað úrskurði breskra dómstóla um að koma í veg fyrir framsal Julians Assange, stofnanda WikiLeaks. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, ávarpaði mótmælendur fyrir utan dómshúsið þar sem krafist var lausnar Assange úr Belmarsh-fangelsinu í London. 

Assange á yfir höfði sér ákærur í Bandaríkjunum sem gætu orðið til þess að hann verði dæmdur í ævilangt fangelsi.

Við upphaf tveggja daga réttarhalda í í London óskuðu bandarísk stjórnvöld eftir því að Hæstiréttur snúi við úrskurði frá því í janúar um að Assange verði í alvarlegri sjálfsvígshættu fari svo að hann verði fluttur yfir Atlantshafið.

Mótmælandi hvetur til þess að Assange verði sleppt úr haldi.
Mótmælandi hvetur til þess að Assange verði sleppt úr haldi. AFP

„Við teljum að niðurstaða héraðsdómara hafi verið röng,“ sagði James Lewis, lögmaður bandarískra stjórnvalda.

Tveir hæstaréttardómarar munu kveða upp úrskurð sinn síðar en líklegt er að málið dragist áfram á langinn.

Stella Moris fyrir utan dómshúsið.
Stella Moris fyrir utan dómshúsið. AFP

Áhyggjur af heilsu Assange

Stella Moris, sem á tvö börn með Assange, tók þátt í mómælunum fyrir utan dómshúsið. „Ég hef miklar áhyggjur af heilsu Julians,“ sagði Moris við blaðamenn en hún heimsótti hann í fangelsið á laugardaginn.

„Hann er mjög grannur. Ég vona að þessi dómstóll bindi enda á þessa martröð,“ bætti hún við.

Assange, sem er fimmtugur, er eftirlýstur í Bandaríkjunum og á yfir höfði sér 18 ákærur í tengslum við birtingu 500 þúsund leyniskjala á WikiLeaks þar sem greint var í smáatriðum frá hernaði í Afganistan og Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert