Neyðarástand í Eþíópíu vegna uppreisnarsveitar

Stjórnvöld í Eþíópíu hafa lýst yfir neyðarástandi í landinu og skipað borgarbúum í höfuðborginni Addis Ababa að búa sig undir átök. Uppreisnarsveitir úr Tigrayan-héraði nálgast nú höfuðborgina og stjórnvöld segja borgarbúa eiga að vernda sín hverfi. 

Uppreisnarherinn í Tigrayan-héraði hefur háð áralangt stríð við ríkisstjórn Abiy Ahmeds, forsætisráðherra Eþíópíu en Tigrayan-héraðið er í norðurhluta Eþíópíu.

Mega leita, gera útgöngubann og loka fjölmiðlum

Meðal þeirra heimilda sem neyðarástandsyfirlýsingin veitir ríkisstjórninni er réttur til að fyrirskipa útgöngubann, loka vegum og leita á öllum þeim sem stjórnin grunar að tengist skæruliðasveitum. 

Þá getur ríkisstjórnin kallað alla menn á tilteknum aldri sem eigi vopn til herþjónustu og loka þeim fjölmiðlum sem styðja skæruliðasveit Tigrayan á nokkurn hátt.

Uppreisnarhersveit Tigrayan-héraðs segist hafa hernumið tvær borgir í Amhara um 400 kílómetrum frá höfuðborginni. Ríkisstjórn Eþíópíu neitar því en uppreisnarsveitin útlokar ekki að hún muni gera atlögu að höfuðborginni. 

Úr Tigraya-héraði í Eþiópíu.
Úr Tigraya-héraði í Eþiópíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert