Sigur repúblíkana í Virginíu skellur fyrir Biden

Ákaflega fagnað á kosningavöku Younkin í Virginíu.
Ákaflega fagnað á kosningavöku Younkin í Virginíu. AFP

Repúblíkaninn Glenn Youngkin sigraði kosningu til ríkisstjóra Virginíuríkis í Bandaríkjunum í nótt og er frambjóðandi repúblíkana í New Jersey ríki sláandi nálægt sigri. 

Eru úrslit þessara kosninga talin ummerki um að Joe Biden, demókrataískur forseti Bandaríkjanna, sé í vandræðum og útlitið ekki gott fyrir þingkosningar á næsta ári. 

Kosningabarátta Youngkins, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri í stórfyrirtæki og álitinn einskonar fulltrúi atvinnulífsins, komst á verulegt skrið síðustu vikurnar fyrir kjördag. Sigraði hann demókratann og fyrrverandi ríkisstjórann Terry McAuliffe. 

Fráfarandi ríkisstjóri er demókratinn Ralph Northam. Stjórnarskrá Virginíufylkis bannar ríkisstjórum að sitja tvö kjörtímabil í röð. 

Youngkin hefur aldrei áður gengt hlutverki kjörins fulltrúa og kynnti sig og sína baráttu sem ódæmigerða fyrir stjórnmálamenn að vera, þá sérstaklega þegar kom að heitum deilumálum á borð við kennslu í grunnskólum um kynþáttafordóma og grímunotkun vegna Covid-19. 

Í New Jersey urðu úrslit kosninganna tæpari en við var búist af hálfu demókrata. New Jersey er ríki sem oftast hefur fallið demókrötum í skaut. Talning stendur enn yfir en frambjóðandi repúblíkana, Jack Ciattrelli leiðir með örfáum atkvæðum. Etur hann kappi við sitjandi ríkisstjóra demókrata Phil Murphy. 

Bæði Virginía og New Jersey kusu Joe Biden og demókrata að meirihluta til í forsetakosningunum í fyrra.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert