Aðeins hvítir í kviðdómnum

Ben Crump mannréttindalögmaður sést hér til vinstri ræða við fjölmiðla …
Ben Crump mannréttindalögmaður sést hér til vinstri ræða við fjölmiðla vestanhafs. Með honum fyrir miðja mynd er Marcus Arbery Sr., faðir Ahmaud. AFP

Þinghald yfir þremur hvítum mönnum, sem sakaðir eru um að hafa skotið svartan mann til bana í Georgíu fylki í Bandaríkjunum, hófst í dag. Athygli vekur vestanhafs að einungis einn úr kviðdómi í málinu er svartur á hörund og telja margir að um sé að ræða „vísvitandi mismunun“ við val á kviðdómi.

Fjölmiðlar þar ytra höfðu eftir dómara í málinu, Timothy Walmsley, að „útlit væri fyrir vísvitandi mismunun“ er varðar val á tólf manna kviðdómi. Hann ákvað engu að síður að leyfa kviðdómsvali að standa og leyfa málinu að halda áfram.

Lögmenn höfnuðu flestum sem eru svartir

Gregory McMichael, 65 ára, sonur hans Travis, 35 ára, og nágranni þeirra hinn 52 ára gamli William Bryan eru meðal annars ákærðir fyrir morð eftir að hafa elt hinn 25 ára gamla Ahmaud Arbery uppi og skotið hann til bana í febrúar á síðasta ári.

Við val á kviðdómi, sem stóð yfir í rúmar tvær vikur, höfnuðu lögmenn mannanna þriggja ellefu af tólf mögulegum kviðdómsmeðlimum sem eru svartir á hörund. Þessar aðgerðir lögmanna þremenninganna voru kveikjan að umræðu um mögulega mismunun á grundvelli kynþáttar við meðferð málsins.

Ben Crump er þekktur mannréttindalögmaður.
Ben Crump er þekktur mannréttindalögmaður. AFP

Kviðdómur skuli endurspegla samfélagið

„Eftir að hafa verið eltur uppi, króaður af og skotinn til bana fyrir það eitt að vera svartur maður í hvítu hverfi í Georgíu þá er Ahmaud Arbery nú, enn á ný, meinað um réttlæti,“ hefur AFP eftir mannréttindalögfræðingnum Ben Crump.

Hann sagði þá enn fremur að „kviðdómur í einstaka málum eigi að endurspegla það samfélag þar sem glæpurinn á sér stað,“ en um fjórðungur íbúa Glynn Sýslu þar sem morðið átti sér stað eru svartir.

„Örlög morðingja Ahmaud verður þá ákveðið af nærri því alhvítum kviðdómi,“ sagði Ben að endingu.

mbl.is