Vilja vera á undan áætlun

Í drögum að samkomulagi frá COP26 ráðstefnunni eru þjóðir hvattar …
Í drögum að samkomulagi frá COP26 ráðstefnunni eru þjóðir hvattar til að setja sér metnaðarfyllri markmið. AFP

Drög að samkomulagi frá COP26-loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna hvetur þjóðir til að setja sér metnaðarfyllri markmið, sem kveða á um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, fyrir árslok 2022 eða þremur árum á undan áætlun.

Liggur nú fyrir að flýta þarf frekari aðgerðum sem sporna gegn loftslagsbreytingum í ljósi þeirra nýju gagna sem benda til þess að ríki heims séu langt frá því að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráðu.

Fulltrúar frá tæplega 200 þjóðum víða um heim hafa rætt saman í Glasgow undanfarna 10 daga um hvernig megi uppfylla markmið Parísarsáttmálans. Drög að samkomulagi kveður nú á um að þjóðir þurfi að endurskoða markmið sín og gera þau metnaðarfyllri. Gert er ráð fyrir að drögin munu taka breytingum á næstu dögum en ráðherrar fara nú að funda undir lok ráðstefnunnar.

Jarðefnaeldsneyti líklega í samkomulaginu

Segir meðal annars í drögunum að til að takmarka það að meðalhitastigið hækki um 1,5 gráðu verði allir hlutaðeigandi að grípa til áhrifaríkra aðgerða. Hraður, mikill og viðvarandi samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda væri nauðsynlegur til að afstýra verstu áhrifum hlýnunarinnar sem hefur nú þegar orðið til þess að lönd um allan heim hafa horft upp á aukningu náttúruhamfara.

Á ráðstefnunni í París árið 2015 var lítið minnst á jarðefnaeldsneyti og í stað þess var frekar einblínt á samdrátt í losun. Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar er nokkuð öruggt að kveðið verði á um minni notkun jarðefnaeldsneytis í lokadrögum samkomulagsins.

Verðum að uppfæra markmið

Í Parísarsáttmálanum er kveðið á um að lönd verði að uppfæra loftslagsmarkmið sín á fimm ára fresti. Þrátt fyrir það voru margar þjóðir sem skiluðu ekki inn uppfærðum markmiðum fyrir skilafrestinn á síðasta ári.

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út í aðdraganda COP26 ráðstefnunnar kemur fram að ef núverandi ráðagerðir landa í loftslagsaðgerðum taka ekki breytingum má búast við því að meðalhitastig jarðar hækki um 2,7 gráður á þessari öld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert