Tíminn að renna út á COP26

Alok Sharma, forsetir loftslagsráðstefnunnar, segir að tíminn sé að renna …
Alok Sharma, forsetir loftslagsráðstefnunnar, segir að tíminn sé að renna út. AFP

Alok Sharma, forseti COP26 loftslagsráðstefnunnar, segir mikla vinnu fyrir höndum í samningaviðræðum milli ríkja og að enn eigi eftir að leysa úr brýnustu málefnunum ráðstefnunnar, sem varða að stórum hluta fjármögnun loftslagsaðgerða.

BBC greinir frá þessu.

„Tíminn er að renna út,“ sagði Sharma þegar hann ávarpaði blaðamenn á fundi áðan. Samkvæmt áætlun á ráðstefnunni að ljúka formlega á morgun. Gera þó margir ráð fyrir að hún muni dragast á langinn og að henni ljúki ekki fyrr en um helgina.

Meðal þeirra málefna sem enn hefur ekki tekist að komast til botns í er hvernig eigi að framfylgja sjöttu grein Parísarsáttmálans sem kveður á um kolefnismarkað, það er vettvangur viðskipta með losunarheimildir.

Þá eru enn útistandandi ýmsar viðræður er varða fjármál og fjármögnun. Má þar helst nefna loftslagssjóðinn sem átti að komast á legg á síðast ári en í hann eiga ríkari þjóðir heims að leggja samtals 100 milljarða Bandaríkjadala árlega til að veita þróunarríkjum aðstoð við að draga úr losun og glíma við afleiðingar loftslagsbreytinga.

Spurður hvort ráðstefnan hafi mistekist, svarar Sharma að það sé ekki enn komið í ljós. „Þó að möguleikinn um að halda hlýnun innan við eins og hálfs gráðu markið sé að fjara út, þá er enn von.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert