Tugir handteknir við landamæri Póllands

Flóttamenn í tjaldbúðum við landamærin.
Flóttamenn í tjaldbúðum við landamærin. AFP

Pólski herinn handtók í dag tugi flóttamanna sem tókst að komast yfir landamærin frá Hvíta-Rússlandi og yfir til Póllands. Herinn sakar enn hvítrússnesk yfirvöld um að skipuleggja og standa á bak við flóttamannastrauminn. 

Utanríkisráðherrar G7-ríkjanna ítrekuðu beiðni sína við stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi í dag þess efnis að stíga inn í málið og leysa flóttamannavandann sem herjar á landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands.

Erfitt ástand

Eins og mbl.is hefur áður greint frá hefur Evrópusambandið, nú um nokkuð skeið, sakað hvítrússnesk yfirvöld um að standa að baki og notað krísuna á landamærunum sem andsvar við efnahagslegum þvingunum sem sambandið hefur beitt Hvíta-Rússlandi.

Í tilkynningu frá utanríkisráðherrum G7-ríkjanna og Evrópusambandsins segir: „Við köllum eftir því að yfirvöld hætti tafarlaust að notfæra sér bága stöðu fólksins sem er á flótta“.

Hvít-Rússar viljugir til þess að laga stöðuna

Hvítrússnesk yfirvöld hafa hins vegar áður sagt að þau séu viljug til þess að leysa úr málinu.

Talskona forseta landsins, Alexander Lúkasjenkó, Natalya Eismont sagði við fjölmiðla í dag að um sjö þúsund flóttamenn væru í landinu eins og stendur.

Lukashenko forseti Hvíta-Rússlands segist vilja leysa málin, þó að því …
Lukashenko forseti Hvíta-Rússlands segist vilja leysa málin, þó að því er virðist vera meira í orði en á borði. AFP

Hvít-Rússar muni sjá um að koma fimm þúsundum þeirra aftur til Mið-Austurlanda en fráfarandi kanslari Þýskalands, Angela Merkel, þurfi að semja við Evrópusambandið um að hleypa þeim tvö þúsund sem nú eru við landamærin yfir til Póllands og þaðan til Þýskalands.

Þjóðverjar hafa að svo stöddu ekki svarað þessari beiðni Hvít-Rússa.

Börn líta í gegnum gaddavírinn og sjá þar hóp hermanna …
Börn líta í gegnum gaddavírinn og sjá þar hóp hermanna sem meinar þeim aðgöngu í landið. Eflaust grunlaus um að þau séu bara peð í valdatafli ríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert