Fjölskyldan fær fimmtán milljónir dala í bætur

Elijah McClain lést í haldi lögreglu í ágúst 2019.
Elijah McClain lést í haldi lögreglu í ágúst 2019.

Yfirvöld í Colorado-ríki í Bandaríkjunum hafa staðfest að fjölskylda Elijah McClain, svarts Bandaríkjamanns sem lést í kjölfar afskipta lögreglu árið 2019, muni fá fimmtán milljónir bandaríkjadala í skaðabætur. 

Elijah, sem var 23 ára gamall, lést þremur dögum eftir að þrír lögregluþjónar sprautuðu hann með deyfandi lyfi í borginni Aurora. Bætur til handa McClain fjölskyldunnar í málinu eru þær hæstu sem greiddar hafa verið vegna slíks máls í ríkinu.

Var á heimleið þegar lögregla stöðvaði hann

Lögfræðingar Sheneen, móður Elijah, sögðu við fjölmiðla vestanhafs að hún væri þakklát fyrir stuðning samfélagsins og vongóð um að dauði sonar hennar eigi eftir að leiða til breytinga. 

Mál McClain var á meðal fleiri sambærilegra dauðsfalla sem fengu athygli í kjölfar andláts George Floyd í maí á síðasta ári. McClain var á heimleið í Aurora 24. ágúst 2019 þegar lögregla stöðvaði hann. McClain reyndi að streitast gegn afskiptum lögreglu þegar lögregluþjónarnir reyndu að leita að mögulegum vopnum á honum. Í upptöku af búkmyndavél mátti heyra McClain, sem var á einhverfurófinu, biðja lögregluþjónana um að virða mörk hans. 

Sprautaður með ketamíni

Lögregluþjónarnir tóku McClain kverkataki og héldu honum niður á jörðinni á meðan hann bað þá ítrekað um að sleppa sér. Lögregluþjónarnir kölluðu í kjölfarið á sjúkrabíl og McClain var sprautaður með 500 mg af ketamíni. Hann var úrskurðaður heiladauður 27. ágúst. 

Yfir tveimur árum síðar voru lögregluþjónarnir þrír og tveir sjúkraflutningamenn sem komu á vettvang ákærðir vegna dauða hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert