Sameinuðu þjóðirnar þrýsta á Kína

Sameinuðu þjóðirnar hafa þrýst á að kínversk yfirvöld rannsaki ásakanir tennisstjörnunnar Peng Shuai um nauðgun og upplýsi um hvar hún sé nú niðurkomin. CNN greinir frá.

Ekkert hefur sést til Shuai síðan hún ásakaði fyrrum varaforseta Kína, Zhang Gaoli, um að hafa nauðgað sér. Sagði hún frá nauðguninni á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo þann 2. nóvember síðastliðinn en færslunni var eytt hálftíma eftir að hún var birt.

„Það er mikilvægt að fá sönnun um dvalarstað hennar og líðan og við viljum hvetja til þess að rannsókn fari fram með fullu gagnsæi á ásökunum hennar um kynferðisofbeldi,“ sagði Liz Throssell, talsmaður mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, við blaðamenn í Genf í gær.

Þá sagði Throssell að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði ekkert heyrst frá Shuai síðan hún sagði frá því að samfélagsmiðlum að hún hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi. „Við viljum leggja áherslu á að það er mikilvægt að vita hvar hún er, vita um ástand hennar og vita um líðan hennar,“ sagði Throssell.

mbl.is