Ákærður fyrir manndráp af ásetningi

Íbúar í Wisconsin söfnuðust saman í gær til þess að …
Íbúar í Wisconsin söfnuðust saman í gær til þess að minnast þeirra sem létust þegar bifreið var ekið inn í skrúðgöngu í bænum á sunnudaginn síðastliðinn. AFP

Yfirvöld í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum hyggjast ákæra manninn sem ók bifreið sinni inn í jólaskrúðgöngu í borginni Waukesha á sunnudag fyrir manndráp af ásetningi.

Var á flótta frá lögreglunni

Ökumaðurinn, hinn 39 ára gamli Darrel Edward Brooks Junior myrti með athæfi sínu fimm manns á aldrinum 52 til 81 árs og særði aðra 48, þar á meðal ung börn, að því er lögreglan greinir frá.

Brooks átti að hafa verið á flótta frá lögreglunni vegna heimilisofbeldis er hann ók bifreið sinni inn í mannfjöldann. Hann gæti átt yfir höfði sér frekari ákærur vegna athæfisins. Lögreglan í Waukesha segir ekki hafa verið um hryðjuverk að ræða.

Fjöldi barna og eldri borgara voru á meðal fórnarlamba. Nöfn þeirra fimm sem létust í skrúðgöngunni voru gefin upp í dag en um er að ræða fjórar konur og einn karl. Wilhelm Hospel, 81 árs, Virginia Sorenson, 79 ára, LeAnna Owen, 71 árs, Tamara Durand, 52 ára og Jane Kulich, 52 ára, að því er greint frá í frétt BBC.

Hluti þeirra voru meðlimir danshópsins Milwuakee Dancing Grannies sem kemur reglulega fram í skrúðgöngum borgarinnar.

„Hópurinn okkar var að gera það sem hann elskar að gera, að skemmta fólki,“ skrifaði hópurinn í yfirlýsingu á Facebook. „Þær sem létu lífið voru ákaflega ástríðufullar ömmur.“

Tíu börn lögð inn á gjörgæslu

Tugir manna liggja enn inni á sjúkrahúsi eftir atvikið. Hinir slösuðu voru fluttir af vettvangi á sex mismunandi sjúkrahús á svæðinu, að sögn lögreglu.

Átján börn voru lögð inn á sjúkrahús eftir atvikið, að því er barnaspítalinn í Wisconsin greindi frá í samtali við blaðamenn á fimmtudaginn síðastliðinn.

Viðbragðsaðilar hafa sagt atvikið vera eitt fjölmennasta stórslysi sem komið hefur upp í seinni tíð ríkisins, þar sem börn komu við sögu. Læknar segja nokkur börn hafa hlotið alvarlega höfuðáverka og beinbrot.

Hinir slösuðu eru á aldrinum þriggja til sextán ára, þar á meðal eru þrjú sett af systkinum, að sögn lækna. Tíu börn þurftu á gjörgæslumeðferð að halda.

mbl.is