Fyrrverandi harðstjóri S-Kóreu látinn

Chun Doo-Hwan (í miðjunni) árið 1997.
Chun Doo-Hwan (í miðjunni) árið 1997. AFP

Fyrrverandi harðstjóri Suður-Kóreu, Chun Doo-hwan, lést í morgun á heimili sínu í höfuðborginni Seúl, níræður að aldri.

Chun var við völd þegar mikill uppgangur var í efnahagslífi Suður-Kóreu, auk þess sem Ólympíuleikarnir voru haldnir í Seúl árið 1988. Hann var fyrsti suðurkóreski forsetinn til að fara frá völdum á friðsamlegan hátt.

Chun, sem var hershöfðingi í suðurkóreska hernum, komst til valda eftir valdarán í kjölfar þess að forsetinn Park Chung-hee var ráðinn af dögum.

Hann var forseti á árunum 1980 til 1988, stjórnaði landinu með harðri hendi og braut grimmilega niður alla andstöðu, allt þar til hann hrökklaðist frá völdum eftir fjöldamótmæli. 

Lík Chun flutt úr húsi hans í Seúl.
Lík Chun flutt úr húsi hans í Seúl. AFP

Chun er þekktur sem „slátrarinn í Gwangju“ fyrir að hafa skipað her sínum að kæfa niður andstöðu gegn honum í borginni, sem er í suðvesturhluta landsins.

Árið 1996 var hann fundinn sekur um landráð og dæmdur til dauða, að hluta til vegna þess sem gerðist í Gwangju. Ekkert varð þó úr aftökunni og var hann á endanum látinn laus eftir að hafa verið náðaður af forseta landsins.

Samkvæmt opinberum tölum létust eða týndust um 200 manns í Gwangju. Aðgerðasinnar segja að talan gæti verið þrefalt hærri.

Chun lýsti atburðunum í Gwangju sem uppþotum og neitaði beinni aðild að því að bæla niður uppreisnina.

Eftir að hann lést lýsti forsetaembætti Suður-Kóreu yfir vonbrigðum yfir því að „engin einlæg afsökunarbeiðni“ hafi borist frá Chun.

Chun Doo-Hwan (í miðjunni) árið 1995.
Chun Doo-Hwan (í miðjunni) árið 1995. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert