Andersson fyrst kvenna forsætisráðherra Svíþjóðar

Magdalena Andersson, nýr forsætisráðherra Svíþjóðar.
Magdalena Andersson, nýr forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Magdalena Andersson, formaður Sósíaldemókrataflokksins í Svíþjóð, er nýr forsætisráðherra landsins. Þetta varð ljóst eftir atvæðagreiðslu í sænska þinginu í morgun.

Andersson er fyrst kvenna til að gegna því embætti og hafa nú konur gegnt forsætisráðherraembættum á einhverjum tímapunkti á öllum Norðurlöndunum.

Löfven-krísunni lokið

Andersson tekur við af Stefan Löfven sem sagði nýverið af sér embætti eftir að staða hans veiktist í þinginu. Svo fór á endanum að vantrauststillaga var samþykkt honum á hendur og upphjófst þá þó nokkur stjórnarkrísa í kjölfarið.

Í frétt sænska ríkisútvarpsins segir að mikill fögnuður hafi brotist út meðal stjórnarþingmanna þegar niðurstöður Andersson í hag urðu ljósar og hlaut hún standandi lófatak. Alls þurftu 175 að kjósa gegn tillögu um að Andersson tæki við embættinu en aðeins 117 atkvæði voru greidd á þá leið. Hins vegar kusu 174 með tillögu um að hún yrði forsætisráðherra og varð tilnefning hennar því staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert