Óttast 700.000 dauðsföll

Nú þegar hafa um 1,5 milljónir Evrópubúa látið lífið af …
Nú þegar hafa um 1,5 milljónir Evrópubúa látið lífið af völdum kórónuveirunnar. AFP

Hans Kluge, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO, varaði við því í gær að Evrópa væri enn í „heljargreipum“ kórónuveirunnar, og að mögulega myndu 700.000 íbúar í álfunni verða faraldrinum að bráð fyrir 1. mars næstkomandi.

Nú þegar hafa um 1,5 milljónir Evrópubúa látið lífið af völdum kórónuveirunnar. Sagði í yfirlýsingu WHO að stofnunin gerði ráð fyrir að gjörgæslurými í 49 af þeim 53 ríkjum sem falla undir Evrópudeildina myndu verða fyrir miklu eða gríðarlega miklu álagi á þeim tíma.

Þá hefði dauðsföllum í álfunni fjölgað upp í nærri 4.200 á dag í síðustu viku, en það er tvöfalt meira en í lok septembermánaðar. Er Covid-19-sjúkdómurinn nú helsta banamein fólks í Evrópu og Mið-Asíu, að sögn stofnunarinnar.

Þá sagði í yfirlýsingu WHO að vísbendingar væru um að ónæmi það sem hlotist hefði af bólusetningum færi nú minnkandi. Nokkur ríki álfunnar, þar á meðal Grikkland, Frakkland og Þýskaland, íhuga nú að skylda fólk til að þiggja þriðja skammtinn af bóluefni til þess að það geti talist fullbólusett.

Kluge sagði að fram undan væri erfiður vetur og kallaði eftir því að ríki álfunnar beittu samblandi af bólusetningum, samskiptafjarlægð, grímum og handþvotti til að halda veirunni í skefjum, en WHO segir að andlitsgrímur geti dregið úr líkum á kórónuveirusmiti um 53%. Sagði í yfirlýsingu stofnunarinnar að hægt yrði að koma í veg fyrir rúmlega 160.000 dauðsföll í Evrópu fyrir 1. mars ef 95% íbúa notuðu grímu að staðaldri.

Segir óbólusetta „lata“

Joachim Sauer, eiginmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, vakti í gær athygli með ummælum sínum í ítalska dagblaðinu La Repubblica, en hann sagði það vera til marks um „leti“ að einn þriðji þýsku þjóðarinnar ætti enn eftir að fá bólusetningu.

Um 68% Þjóðverja teljast nú fullbólusett, en mikil umræða er í landinu um hvort skylda eigi fólk til þess að fá bólusetningu gegn kórónuveirunni, líkt og Austurríkismenn hafa boðað.

Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands, og Winfried Kretschmann, forsætisráðherra Baden-Würtemberg, kölluðu í gær eftir því í aðsendri grein að gripið yrði til slíkrar skyldu, sem væri nauðsynleg til að endurheimta frelsi Þjóðverja.

Þá sagði talsmaður þýska varnarmálaráðuneytisins að gert væri ráð fyrir að þýskir hermenn yrðu skyldaðir í bólusetningu á næstunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »