Johnson vill að Macron taki við flóttafólkinu

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur skrifað Emmanuel Macron, forseta Frakklands, bréf þar sem hann óskar eftir því að frönsk stjórnvöld taki þegar í stað við öllum því flóttafólki sem kom til Englands eftir að hafa siglt yfir Ermarsund. Að minnsta kosti 27 flóttamenn drukknuðu í gær skammt undan strönd Calais í Frakklandi, sem er eitt mannskæðasta sjóslys sem þar hefur orðið. 

Johnson segir m.a. að ef Frakkar taki við flóttafólkinu þá muni það draga verulega úr, jafnvel alfarið stöðva, þessar siglingar. Það myndi bjarga mörg þúsund mannslífum með því að eyðileggja viðskiptamódel glæpasamtaka sem stundi mansal með þessum hætti. 

Málið þykir hið viðkvæmasta fyrir leiðtogana, en mjög hefur færst í vöxt að flóttfólk og hælisleitendur reyni að komast yfir Ermarsundið, þ.e. frá Frakklandi yfir til Bretlands. 

Macron Frakklandsforseti.
Macron Frakklandsforseti. AFP

Johnson nefnir einnig í bréfinu, sem hann sendi í kvöld, hvernig Bretar og Frakkar geti unnið nánar saman, m.a. unnið sameiginlega að eftirliti við landamæri ríkjanna, verið með sameiginlegt eftirlit úr lofti og deilt upplýsingum frá leyniþjónustustofnunum.  

„Við erum reiðubúin að hefja slíkt eftirlit í byrjun næstu viku,“ skrifar Johnson.

Bretar og Frakkar hafa þegar kallað eftir því að ríki Evrópu samræmi aðgerðir til að stemma stigu við smygli á fólki yfir Ermarsundið. Árið 2018 varð leiðin yfir hafsvæðið lykilæð fyrir flóttafólk frá Afríku, Miðausturlöndum og Asíu sem reynir að komast til Englands frá Frakklandi. 

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, hefur rætt við starfsbróður sinn í Frakklandi, Gerald Darmanin, um gerð áætlunar sem ýti undir frekara samstarf þjóðanna á þessu sviði.

Starfsmenn bresku strandgæslunnar sjást hér ásamt flóttafólki sem sigldi yfir …
Starfsmenn bresku strandgæslunnar sjást hér ásamt flóttafólki sem sigldi yfir Ermarsundið til Bretlands í dag. AFP

Patel og Darmanin munu hittast um helgina til viðræðna og þá mun Patel senda lögreglumenn til Frakklands til að veit nauðsynlega aðstoð í Frakklandi. 

Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar að Macron hafi heitið því að Ermarsundið muni ekki verða að grafreit. Hann ræddi fyrr í dag við Johnson þar sem þeir sammæltust um að efla viðbragð og aðgerðir til að stöðva þá glæpahópa sem beri ábyrgð á þessum siglingum. Franska forsetaskrifstofan segir að Macron hafi sagt við Johnson að Frakkland og Bretland deili ábyrgðinni og að hann búist við því að Bretar muni sýna fullan samstarfsvilja og halda sig frá því að nota svona skelfileg mál í pólitískum tilgangi. 

Patel hefur áður sagt að hún viji ekki útiloka þann möguleika að stöðva siglingu bátana og láta þá snúa við. 

Samkvæmt gögnum sem breska fréttastofan PA hefur tekið saman, þá hafa ríflega 25.700 manns hafa siglt yfir Ermarsundið á litlum bátum það sem af er þessu ári, eða þrefalt fleiri einstaklingar en var allt árið 2020. 

Darmanin heldur því fram að frönsk stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi standi til að stöðva þetta flæði, m.a. hafi Frakkar handtekið um 1.500 manns á þessu ári sem stunda slíkt mansal. 

mbl.is