Mannleg mistök ollu mannskæðasta slysi í áratug

Rútan rústir einar á meðan rannsóknaraðilar framkvæma skoðun á vettvangi …
Rútan rústir einar á meðan rannsóknaraðilar framkvæma skoðun á vettvangi slyssins. AFP

Saksóknarar í Búlgaríu segja að líklega hafi mannleg mistök orðið til þess að 44 manns fórust í rútuslysi þar í landi á þriðjudag. Umferðarslysið er eitt það mannskæðasta í Evrópu á síðastliðnum áratug.

Flestir um borð voru norðurmakedónskir ferðamenn á leið frá Istanbúl í Tyrklandi til Skopje, höfuðborgar Makedóníu. Meðal hinna látnu eru börn, þeirra yngstir eru fjögurra ára gamlir tvíburar.

Köfnuðu þegar kviknaði í 

Rútan ók utan í vegrið og varð alelda en tildrög slyssins eru ekki að fullu þekkt. Flestir farþeganna urðu innlyksa og létust í eldsvoðanum á meðan um sjö farþegar náðu að brjóta sér leið í gegnum rúðu hópferðabílsins. Þeir eru nú á sjúkrahúsi í Sofia, höfuðborg Búlgaríu, og er ástand þeirra stöðugt.

„Krufning hefur leitt í ljós að dánarörsök hinna látnu er að mestu leyti köfnun vegna eldsins sem braust út. Sót fannst í öndunarfærum þeirra,” sagði Borislav Sarafov ríkissaksóknari við fjölmiðla í dag.

„Að svo stöddu þykir líklegast að mannleg mistök hafi valdið slysinu,” sagði hann einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert