Áhyggjur í Bretlandi af „grænsvikum“

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Grænsvik“ munu kosta breska skattgreiðendur um 50 milljarða sterlingspunda fram til ársins 2050 – jafnvirði nær 9 þúsunda milljarða króna – samkvæmt skýrslu alþjóðlegs fyrirtækis á sviði fjármálaráðgjafar.

Í Bretlandi eru margvíslegar reglugerðir, styrkir, niðurgreiðslur og fjárfestingarverkefni í bígerð eða komin í gagnið á vegum hins opinbera með það að markmiði að ýta undir loftslagsmarkmið næstu áratugi, en þar hefur verið mörkuð sú stefna að algerum kolefnisjöfnuði verði náð árið 2050. Það er ákaflega metnaðarfullt markmið, en ýmsir hafa orðið til þess að gagnrýna það fyrir að fórna alltof miklu fyrir óvissan ávinning.

Tækifæri fyrir svikahrappa

Samkvæmt skýrslunni, sem unnin var af FTI, einu fremsta fjármálaráðgjafarfyrirtæki heims, er viðbúið að glæpahópar notfæri sér þessi verkefni til þess að verða sér úti um auðfengið fé úr sjóðum hins opinbera og féfletta neytendur, sem þurfa að fara eftir ótal nýjum reglugerðum um einangrun, varmadælur og aðra græntækni á heimilum.

Fyrirtækið áætlar að um 5% af þeirri billjón sterlingspunda (175.000 milljarðar króna) sem stjórnvöld áætla að verja í þessu skyni fram til 2050 muni glatast vegna „grænsvika“. Að jafnaði megi gera ráð fyrir að árlega muni skattgreiðendur tapa jafnvirði liðlega 600 ma.kr. af þeim sökum.

Í skýrslunni voru talin upp margvísleg svik sem þegar hefur komist upp um, þar sem glæpamenn notfærðu sér alls kyns tækifæri í boði hins opinbera. Það hefur hleypt af stokkunum alls kyns umhverfisverkefnum, oft af nokkurri bjartsýni um hve margir vilji nýta sér þau, en fyrir vikið hefur ekki alltaf verið gætt nægilegrar varúðar gagnvart þeim sem þó sækja um og njóta góðs af. Hluti vandans er einnig sú tilhneiging í stjórnsýslunni að mæla aðgerðir í fjárútlátum fremur er eiginlegum árangri.

Megnið mun að líkindum verða svikið út úr hinu opinbera, en einstaklingar og fyrirtæki munu einnig verða fyrir barðinu á vökulum og kvikum fjársvikurum.

Aukin svik í heimsfaraldri

Þessir útreikningar FTI eru byggðir á áætlunum ríkisvaldsins sjálfs á fjársvikum í opinbera geiranum, rannsóknum samtaka réttarendurskoðenda (ACFE) og matsnefndar fjársvika (FCMC) þar í landi.

Að auki má búast við „stórfenglegri og óþarfri sóun á fjármunum skattborgara“ og svikum, einstaklega stórum í sniðum, ef ekki verður gripið til öflugra varna til þess að draga úr áhættu á fjársvikum af því tagi. Því til áréttingar fylgdi með upptalning á margvíslegum svikum af þessum toga, sem þegar hefur komist upp um á undanförnum misserum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert