„Okkur líður eins og við höfum framið glæp“

„Okkur líður eins og við höfum framið glæp,“ segja belgískir ferðalangar sem staddir eru í Suður-Afríku í samtali við AFP-fréttaveituna. Mörg ríki hafa sett á ferðatakmarkanir til sunnanverðrar Afríku vegna Ómíkron-afbrigðisins.

Flug Valerie Leduc til Sviss frá Jóhannesarborg var fellt niður og því þarf hún ásamt vini að fljúga í gegnum Eþíópíu til þess að komast til síns heima. Nýji flugmiðinn heim kostaði Leduc þúsund evrur, eða tæplega 150 þúsund krónur.

Ferðum hafa verið aflýst í stórum stíl.
Ferðum hafa verið aflýst í stórum stíl. AFP

Margir ferðalangar eru nú fastir á alþjóðaflugvöllum Suður-Afríku og reyna að ná sambandi við sendiráð síns heimalands eða bóka flug til Eþíópíu eða Austur-Kóngó. Þau ríki eru enn sem komið er ekki á rauðum listum Evrópuríkja.

„Við reyndum fyrst að breyta fluginu okkar en það var ekki hægt,“ segir Þjóðverjinn Laura Herde sem ætlaði í gönguferð með vinum þegar ferðabannið skall á. „Það var ekki laust í neitt flug svo við þurftum að bóka nýtt. Við bókuðum fyrsta flugið sem var laust.“

Nica Kruger frá Suður-Afríku var að reyna að komast til Dúbaí til þess að heimsækja kærasta sinn og flakkaði á milli flugfélaga á flugvellinum til þess að finna miða. „Þetta er algjör ringulreið,“ sagði hún. 

Ringulreið ríkir á flugvellinum í Jóhannesarborg.
Ringulreið ríkir á flugvellinum í Jóhannesarborg. AFP
mbl.is