Tveir látnir eftir óveður í Bretlandi

Fólk á ferðinni í rigningu í London í gær.
Fólk á ferðinni í rigningu í London í gær. AFP

Tveir menn hafa látist, rafmagn hefur farið af þúsundum heimila og ökumenn voru fastir á ísilögðum vegum í nótt vegna óveðurs sem hefur gengið yfir norðurhluta Bretlands. 

Báðir mennirnir létust eftir að tré féllu á bílana þeirra. Annar þeirra, sem var kennari, lést á Norður-Írlandi seint í gærkvöldi, að sögn lögreglunnar. Hinn lést í Cumbria-sýslu á Englandi. 

„Fólk á að halda sig fjarri ströndinni vegna þess að öldur og lausamunir geta sett fólk í lífshættu,“ sagði í yfirlýsingu frá bresku veðurstofunni.

Vindhviður mældust á 160 kílómetra hraða á klukkustund og rafmagn fór af á 55 þúsund heimilum í norðurhluta Englands.

Í Skotlandi hefur rafmagnið farið af um 80 þúsund heimilum, að sögn BBC. Áfram er varað við slæmu veðri á Bretlandseyjum í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert