Hvetja önnur Afríkuríki til að afnema ferðabann

Angóla, Máritíus, Rúanda og Seychelles-eyjar hafa stöðvað flug frá Suður-Afríku …
Angóla, Máritíus, Rúanda og Seychelles-eyjar hafa stöðvað flug frá Suður-Afríku í því skyni að verjast nýja afbrigðinu. AFP

Suður-Afríka sagði í dag að það væri sorglegt að Afríkuþjóðir hefðu gengið til liðs við áhlaup auðugra ríkja til að setja ferðabann á Suður-Afríku, vegna nýja Covid afbrigðisins Ómíkrón.

„Það er frekar grátlegt, mjög óheppilegt, og ég mun jafnvel segja sorglegt, að vera að tala um ferðatakmarkanir sem settar eru af öðru Afríkuríki,“ sagði Clayson Monyela, talsmaður utanríkisráðuneytisins í Suður-Afríku, í dag.

Angóla, Máritíus, Rúanda og Seychelles-eyjar hafa stöðvað flug frá Suður-Afríku í því skyni að verjast nýja afbrigðinu. Monyela sagði að Suður-Afríka hefði nýlega gefið „stór framlög“ af bóluefnum til sumra landa sem nú væru að setja á ferðabann.

Óskynsamlegt af öðrum Afríkuríkjum að setja á ferðabann

„Þegar annað Afríkuríki gerir það, sérstaklega í því samhengi þar sem flest þessara landa eru styrkþegar að þá er það ekki skynsamlegt,“ sagði hann á blaðamannafundi í dag.

Monyela sagði að ráðuneyti sitt væri að hvetja þau lönd í álfunni og víðar sem höfðu drifið sig í því að setja á ferðatakmarkanir að afnema þær. Tugir þjóða hafa sett á ferðatakmarkanir á Suður-Afríku síðan Ómíkrón afbrigðið greindist þar á fimmtudag.

Máritíus og Rúanda eru nýjustu ríkin sem stöðva flug en Rúanda tilkynnti seint í gær að stöðva ætti beint flug til og frá níu löndum í Suðurhluta Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert