Fannst á lífi degi eftir að bátnum hvolfdi

Kraftaverk átti sér stað þegar að japanska landhelgisgæslan bjargaði 69 ára gömlum manni frá drukknun eftir að tæplega sólarhringur hafði liðið frá því að tilkynning barst um að báti hans hafði hvolft.

Maðurinn var á reki á opnu hafi í 22 klukkustundir áður en landhelgisgæslan kom honum til aðstoðar en hann hafði verið einn á bát á leið til eyjunnar Yakushima sem er staðsett suðvestur af Japan. 

Til að halda á sér hita hafði hann vafið sig í gráan plastdúk og tókst honum að setja sig í samband við samstarfsfélaga á eyjunni og láta vita af óförum sínum.

Hjálp barst þó ekki fyrr en degi síðar þegar að björgunarmennirnir komu auga á hann þar sem hann sat ofan á bátnum sem var á hvolfi. Voru þeir mjög hissa á því að maðurinn hefði komist lífs af.

„Það er kraftaverk að hann lifði þetta af,“ sagði talsmaður japönsku landhelgisgæslunnar í samtali við fjölmiðla.

mbl.is