Segja yfirvöld hafa ráðlagt sér að flýja

Af flugvellinum í Schipol í Hollandi.
Af flugvellinum í Schipol í Hollandi. AFP

Parið sem flúði af hóteli í Hollandi þar sem þau áttu að sæta einangrun eftir að hafa greinst með Covid-19 við komuna frá Suður-Afríku, saka hollensk yfirvöld um að hafa ráðlagt þeim að flýja. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Carolina Pimenta greindist með Covid-19 eftir lendingu á Schiphol-flugvellinum í Amsterdam með flugi frá Suður-Afríku á föstudag. Hún var síðan handtekin af landamæralögreglunni á sunnudagskvöld í flugvél sem var að fara að taka á flug til Spánar.

Carolina var ein af 61 farþega sem hafði greinst smitaður eftir flug frá Suður-Afríku til Amsterdam, þar af voru 14 með hið nýja afbrigði veirunnar Ómíkron. Hún hafði farið í PCR-próf fyrir flugið og fengið neikvætt úr því ásamt maka sínum, Andrés Sanz.

„Ef ég væri þú þá myndi ég fara

Parið vildi fá að vera saman í einangrun og voru bæði flutt á hótel í tíu mínútna akstursfjarlægð frá flugvellinum. Carolina var sannfærð um að PCR-prófið sem hún hafði farið í eftir flugið hefði verið falskt jákvætt og bað heilbrigðisstarfsfólk um að fá að taka annað próf.

Hún segir í samtali við fréttastofu breska ríkisútvarpsins að við þeirri beiðni hafi verið stungið upp á því að maki hennar myndi fá lánað hjól og kaupa hraðpróf í nálægri matvöruverslun. Maki hennar átti þó einnig að vera í einangrun, þar sem hann hafði verið í návígi við smitaðan einstakling.

Parið segist síðan hafa sýnt hollensku lögreglunni og heilbrigðisteymi á staðnum neikvæðar niðurstöður úr hraðprófum og fullyrða að þeim hafi verið sagt: „Ef ég væri þú þá myndi ég fara.“

Þau fóru því með leigubíl aftur á flugvöllinn þar sem þau notuðu gömul PCR-próf, sem þau höfðu tekið fyrir flugið frá Suður-Afríku og voru neikvæð, til þess að komast í flug til Spánar.

Fóru tafarlaust um borð í flugvélina og handtóku Carolinu

Willem Gijtenbeek, talsmaður lögreglunnar í Norður-Hollandi, sagði við breska ríkisútvarpið að fram að þeim tímapunkti hefði lögregla ekki haft lögsögu til að halda neinum fyrir að hafa rofið sóttkví. 

„Þegar hjónin yfirgáfu hótelið greip yfirmaður öryggissvæðisins í Kennermerland hins vegar til lagalegra ráðstafana vegna ógnar við lýðheilsu og fyrirskipaði lögboðna einangrun þeirra,“ útskýrði hann. Landamæralögreglan fór svo tafarlaust um borð í flugvélina og handtók Carolinu.

Heilbrigðisyfirvöld á staðnum neituðu að hjónin hefðu fengið leyfi til að yfirgefa hótelið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert