Vildi WHO ekki móðga Xi?

Þegar nýju afbrigði kórónuveirunnar var úthlutað gríska bókstafnum ómíkron var …
Þegar nýju afbrigði kórónuveirunnar var úthlutað gríska bókstafnum ómíkron var hlaupið yfir bókstafinn xi. Hefur verið haldið fram að það hafi verið gert til að móðga ekki Xi Jinping, forseta Kína. AFP

Þegar ákveðið var að einkenna nýtt afbrigði af kórónuveirunni með gríska bókstafnum ómikron var tveimur bókstöfum úr gríska stafrófinu sleppt. Var ástæðan sú að ekki mátti móðga Xi Jinping, leiðtoga Kína?

Þegar ákveðið var að nefna kórónuveiruafbrigðið B.1.1.529 Ómíkron-afbrigðið og nota 15. staf gríska stafrófsins hjuggu margir eftir því að tveimur bókstöfum hafði verið sleppt, ný og xi. Kviknuðu strax vangaveltur um að Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna, WHO, vildi ekki styggja forseta Kína.

Þeirra á meðal var Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður úr röðum repúblikana, sem var ekki skemmt. „Ef WHO er svona hrætt við kínverska kommúnistaflokkinn, hvernig á maður þá að geta treyst því að stofnunin kalli hann til ábyrgðar næst þegar hann reynir að hylma yfir hræðilegan heimsfaraldur?“

Þýska tímaritið Spiegel spurðist fyrir um það hjá WHO hverju það sætti að hlaupið hefði verið yfir stafina tvo. Fengust þær skýringar að ny líktist um of enska orðinu „new“ og gæti það valdið ruglingi. Xi hefði hins vegar verið sleppt vegna þess að um væri að ræða „algengt eftirnafn“. Hefði þar verið fylgt leiðbeiningum um nafngiftir nýrra sjúkdóma, sem snerust um að forðast að særa tiltekna hópa, hvort sem það væri á forsendum menningar, félagslegra þátta, þjóðernis, svæðis, atvinnu eða uppruna.

Næst á eftir ómíkron kemur pí, „π“, í gríska stafrófinu. Spurning er hvort hlaupið verður yfir pí þegar næsta afbrigði verður nefnt af tillitssemi við stærðfræðinga.

Ómíkron þýðir litla o, o-míkron, er stuttur sérhljóði og er skrifað með tákninu „O“. Ómega merkir hins vegar stóra o, o-mega, er langur sérhljóði og er skrifað með tákninu „Ω“.

mbl.is