Sebold bað mann sem var ranglega dæmdur fyrir nauðgun afsökunar

Alice Sebold.
Alice Sebold.

Bandaríski rithöfundurinn Alice Sebold hefur beðist afsökunar á því að maður var ranglega sakfelldur og dæmdur í fangelsi fyrir að hafa nauðgað henni árið 1981, en þá var hún 18 ára gamall nemandi við Syracuse-háskólann í New York. Maðurinn var í síðustu viku hreinsaður af öllum ásökunum.

Sebold fjallar um nauðgunina í ævisögu sinni, Heppin, en þar kemur fram að hún hafi sagt við lögregluna, nokkrum mánuðum eftir árásina, að hún hefði séð svartan mann á götunni sem hún taldi vera þann sem braut á henni.

Þetta leiddi til þess að Anthony Broadwater var handtekinn og dæmdur í fangelsi, en hann sat alls 16 ár á bak við lás og slá. Fjallað er um málið á vef breska útvarpsins.

Broadwater segir í yfirlýsingu að hann sé feginn að afsökunarbeiðnin hafi komið fram.

„Ég biðst sérstaklega afsökunar á þeirri staðreynd að lífið sem þú hefðir getað lifað var tekið frá þér með óréttmætum hætti, og ég veit að engin afsökunarbeiðni getur breytt því sem kom fyrir þig og mun aldrei gera það,“ segir Sebold í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér.

Eftir að Broadwater var handtekinn var Sebold fengin til að bera kennsl á hann ásamt öðrum mönnum sem voru í haldi lögreglu. Hún benti á annan mann en svo fór að lokum að réttað var í máli Broadwater og hann sakfelldur, en sakfellingin byggðist að mestu á hennar lýsingum og greiningu á hári sem fannst á svæðinu.

Broadwater var sleppt úr fangelsi árið 1998 en hann var ávallt skráður sem dæmdur kynferðisbrotamaður. Það var svo 22. nóvember sl. að hann var hreinsaður af sök eftir að málið hafði verið tekið upp að nýju, en niðurstaðan var sú að sönnunargögnin sem voru notuð gegn honum hafi verið ófullnægjandi.

Broadwater sagði við AP-fréttastofuna að hann hefði grátið „gleðitárum“ þegar hann fékk fréttirnar og hann hefði fundið fyrir miklum létti.

Sebold segir að hún hafi undanfarna viku reynt að ná utan um það hvernig þetta gat gerst. „Ég þarf einnig að takast á við þá staðreynd að það muni, að öllum líkindum, aldrei koma fram hver það var sem nauðgaði mér, og að maðurinn hafi mögulega nauðgað öðrum konum, og að hann muni örugglega aldrei þurfa að sitja á bak við lás og slá eins og Broadwater varð að gera.“

mbl.is