Hitti hundruð einstaklinga en smitaði aðeins einn

Maor óttaðist hið versta eftir að hafa átt í samskiptum …
Maor óttaðist hið versta eftir að hafa átt í samskiptum við fjölda einstaklinga. AFP

Ísraelski hjartalæknirinn Elad Maor óttaðist að hann hefði jafnvel smitað hundruð einstaklinga af hinu nýja Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar þegar hann greindist sjálfur síðastliðinn laugardag. En nýja afbrigðið er talið töluvert meira smitandi en fyrri afbrigði.

Í þrjá daga áður en Maor greindist átti hann í töluvert nánum samskiptum við fjölda einstaklinga. Hann fór meðal annars á fjölmennan starfsmannafund á Sheba Medical Center, spítalanum þar sem hann starfar, í austurhluta Tel Aviv.

Hann framkvæmdi tíu aðgerðir. Keyrði á ráðstefnu hjartalækna í norðurhluta Tel Aviv og deildi bíl með sjötugum kollega sínum í um 90 mínútur og borðaði með fimm kollegum til viðbótar í troðfullum matsal.

Þá fór hann á píanótónleika hjá 13 ára syni sínum þar sem voru tugir annarra áhorfenda og borðaði kvöldverð ásamt konu sinni, börnum, tengdaforeldrum og níu öðrum fjölskyldumeðlimum. 

Langflestir þeirra einstaklinga sem hann átti í samskiptum við voru fullbólusettir með bóluefni Pfizer og höfðu einnig fengið örvunarskammt með sama bóluefni.

Niðurstöðurnar vekja vonir

Nú eru liðnir fimm dagar og ótrúlegt en satt hefur aðeins einn þeirra sem hann hitti á þessum þremur dögum greinst með Ómíkron-afbrigði veirunnar; kolleginn sem hann sat með í bíl í 90 mínútur. Smituðum gæti vissulega fjölgað og ekki hafa allir enn verið prófaðir, en að minnsta kosti 50 einstaklingar hafa verið prófaðir í tengslum við smit Maor og 10 þeirra hafa verið verið prófaðir að minnsta kosti þrisvar. New York Times greinir frá.

Þessar fyrstu niðurstöður hafa vakið vonir hjá smitsjúkdómasérfræðingum á Sheba spítalanum, þar sem eitt helsta kórónuveiruteymi Ísraels er staðsett, um að þeir sem hafa fengið örvunarskammt séu betur varðir gegn Ómíkron-afbrigðinu en í fyrstu var talið. Sérfræðingar segja þó varla hægt að draga ályktun út frá þessu einstaka tilfelli. Niðurstöðurnar gefi það þó til kynna að í einhverjum tilfellum sé Ómíkron-afbrigðið ekki jafn smitandi.

Maor sjálfur varð hins vegar töluvert veikur af völdum veirunnar, þrátt fyrir að vera þríbólusettur og það var áhyggjuefni út af fyrir sig. Hann reykir ekki, er í góðu formi og ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma. Hann telur að ef ekki hefði verið fyrir bólusetninguna, hefði hann þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Bólusetningin hafi þannig veitt honum vörn, þrátt fyrir að hann hafi smitast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert