Ómíkron gæti hafa orðið til í einum manni

Ómíkrón afbrigðið veldur áhyggjum víða um veröld.
Ómíkrón afbrigðið veldur áhyggjum víða um veröld. AFP

Margt er enn óljóst hvað varðar Ómíkron-afbrigðið sem nú virðist búa sig til atlögu á heimsvísu. Eitt af því sem vísindamenn hafa ekki getað komist að er hver uppruni afbrigðisins er. Það er, hvar og hvernig þessi sérstaka stökkbreyting þróaðist.

Með því að skoða erfðalykil og erfðamengi veiru sem greinist í fólki geta vísindamenn búið til eins konar ættartré, og þannig séð hvaða afbrigði séu skyld.

Þrjár tilgátur

Þegar ættartré Ómíkron er skoðað kemur á daginn að náskyldasti ættingi afbrigðisins, ef svo má að orði komast, eru afbrigði sem greindust á miðju síðasta ári. Með öðrum orðum þá er hægt að fullyrða að afbrigðið á rætur sínar að rekja til afbrigðis sem reikaði um mitt síðasta ár, en ekki er ljóst hvernig hún þróast í núverandi mynd undanfarið rúmt ár.

Veiran hefur töluvert stökkbreyst frá áðurnefndum ættingja hennar.

Trevor Bedford veirufræðingur í Seattle og Richard Lessells, sóttvarnasérfræðingur í Suður-Afríku, útlista þrjár mismunandi tilgátur sem gætu skýrt þetta í viðtali við NPR.

Frá bólusetningu í Suður-Afríku í nóvember.
Frá bólusetningu í Suður-Afríku í nóvember. AFP

Ein tilgáta

Fyrsta tilgátan gengur út á að veiran hafi smitast inn í einhverja dýrategund og þróast þar og sé nýlega gengin til baka í menn.

Bedford segir þetta þó ólíklegt enda mætti vænta þess að ákveðin ummerki erfðaefnis dýrsins væri þá að finna í afbrigðinu. Svo sé ekki.

Þess í stað er að finna vísbendingar um erfðaefni manna, sem gefur til kynna að afbrigðið hafi þróast í mönnum.

Önnur tilgáta

Önnur tilgátan er á þann veg að Ómíkron hafi þróast á svæði í suðurhluta Afríku þar sem lítið er skimað og raðgreint. Í raun handan ratsjár sóttvarnayfirvalda.

Þegar veiran hafi að fullu stökkbreyst og fundið styrk sinn hafi hún sprungið út. Þetta er einnig talið ólíklegt þar sem gert er ráð fyrir því að veiran hefði þá dreift sér fyrr en raunin varð.

Þriðja tilgátan

Síðasta tilgátan gengur þá út á það að Ómíkron-afbrigðið gæti hafa þróast og orðið til í líkama einhvers eins manns. Líklegast væri um að ræða einstakling sem væri með laskað ónæmiskerfi, til að mynda vegna virkrar og ómeðhöndlaðrar HIV-sýkingar.

Þá væri ónæmiskerfið nægilega sterkt til þess að tryggja að viðkomandi aðili lifi, en ekki nóg til þess að drepa veiruna í líkamanum.

Veiran gæti því hafa blundað í sama einstaklingnum svo mánuðum skipti, háð marga bardaga við ónæmiskerfið og því fengið mörg tækifæri til að stökkbreytast, og loks smitast út frá viðkomandi.

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar Erfðagreiningar segir þekkingu þekkingarinnar vegna ávallt …
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar Erfðagreiningar segir þekkingu þekkingarinnar vegna ávallt af hinu góða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þekking skiptir alltaf máli

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var spurður út í þessar tilgátur vísindamannanna í samtali við mbl.is í dag.

„Við verðum að hafa í huga að þessi veira [sem veldur Covid-19] er búin að smita alveg ofboðslegan fjölda manna og í fjórða hvert skipti sem hún smitast þá safnar hún að sér nýrri stökkbreytingu.

Einkennilegt umhverfi er því ekki nauðsyn fyrir stökkbreytingu. Þó það sé líklegra að þetta gæti gerst í manneskju með laskað ónæmiskerfi þá vegur það ekki á móti þessum gífurlega fjölda manna sem hafa smitast.“

En skiptir þetta máli fyrir okkur, að vita upprunann?

„Þekking þekkingarinnar vegna er alltaf mikilvæg. Það er gaman og gott að vita þessa hluti. Og vitneskja leiðir ávallt til nýrra spurninga, en þetta hefur engin áhrif á það hvernig við tökumst á við stöðuna nú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert