Segja fyrra smit ekki duga gegn Ómíkron

Vísindamenn vinna nú myrkranna á milli við að rannsaka hið …
Vísindamenn vinna nú myrkranna á milli við að rannsaka hið nýja afbrigði. AFP

Þeir sem smitast hafa af fyrri afbrigðum kórónuveirunnar eru ekki endilega varðir gegn Ómíkron-afbrigði veirunnar, sem nú hefur greinst hér á landi. 

Vísindamenn í Suður-Afríku segja þannig að mögulega geti þeir sem áður hafa smitast einnig smitast af Ómíkron-afbrigðinu, þó að bólusetningar gegn veirunni nái enn að fyrirbyggja alvarleg veikindi í flestum tilfellum. 

„Við teljum að fyrri sýking veiti ekki vörn gegn Ómíkrón,“ segir Anne von Gottberg, sérfræðingur hjá smitsjúkdómastofnun Suður-Afríku.

Með vísan til fyrri rannsókna á þessu nýja afbrigði sagði Gottberg að vísindamenn sæju aukningu í tíðni endursmita vegna Ómíkron-afbrigðisins.

„Við gerum ráð fyrir því að smitum á landsvísu muni fjölga í veldisvexti,“ sagði hún einnig.

mbl.is