Sektaður fyrir að fjarlægja rangan fót af sjúklingi

Læknirinn merkti rangan fót til aflimunar.
Læknirinn merkti rangan fót til aflimunar. Ljósmynd/Colourbox

Dómstóll í Austurríki hefur sektað skurðlækni fyrir að fjarlægja rangan fót af 82 ára sjúklingi fyrr á þessu ári.

Skurðlæknirinn sagði fyrir dómi að mannleg mistök hefðu átt sér stað, en dómari í málinu komst að þeirri niðurstöðu að læknirinn hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og var honum gert að greiða sekt upp á 2.700 evrur, eða tæpar 400 þúsund íslenskar krónur. The Guardian greinir frá.

Þá var lækninum einnig gert að greiða ekkju sjúklingsins 5.000 evrur í skaðabætur, eða rúmar 700 þúsund íslenskar krónur, en sjúklingurinn lést áður en málið var tekið fyrir.

Læknirinn merkti rangan fót til aflimunar fyrir aðgerðina, en hún fór fram í maí á þessu ári í bænum Freistadt. Mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en tveimur dögum eftir aðgerðina.

Læknirinn bar fyrir sig að gallar hefðu verið á verklagi og stjórnun á skurðstofunni, en hann starfar nú á annarri heilbrigðisstofnun og getur áfrýjað dómnum.

Yfirstjórn heilbrigðisstofnunarinnar þar sem aðgerðin fór fram sagði í yfirlýsingu að ástæður mistakanna og þær kringumstæður sem hafi verið til staðar hafi verið greindar í þaula. Innra verklag hefði verið rætt í þaula og að þjálfun hefði farið fram.

mbl.is