Biden herðir ferðareglur

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að herða reglur um ferðalög til Bandaríkjanna vegna Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Nokkur smit af því afbrigði hafa greinst á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum. 

Biden hefur gefið út að hann hyggist sem stendur ekki grípa til útgöngubanns eða víðtækari bólusetningarskyldu en þegar hefur verið komið á í Bandaríkjunum. 

Ómíkron-tilvik hafa greinst í Kaliforníu, Colorado, Minnesota, New York og á Hawaii. Engir þeirra sem greinst hafa með afbrigðið í Bandaríkjunum eru alvarlega veikir.

Afbrigðið hefur greinst í um 30 löndum, þar á meðal hérlendis. 

Enn er ekki ljóst hvort Ómíkron-afbrigðið sé meira smitandi en fyrri afbrigði eða hvort það eigi auðveldara með að komast fram hjá þeirri vörn sem bóluefni gegn Covid-19 bjóða upp á.

Sýnatökuskylda fyrir brottför

Ferðareglur Bidens eru á þann veg að allir farþegar sem koma erlendis frá þurfa að hafa undirgengist sýnatöku á klukkustundunum 24 áður en þeir leggja af stað til Bandaríkjanna og þá skiptir bólusetningarstaða þeirra ekki máli. 

Þá verður grímuskylda í flugvélum, lestum og strætisvögnum framlengd til marsmánaðar. 

mbl.is