Telja innrás líklega í janúar

Reznokov, varnarmálaráðherra Úkraínu, hefur áhyggjur af stöðu mála og segir …
Reznokov, varnarmálaráðherra Úkraínu, hefur áhyggjur af stöðu mála og segir ljóst að hættan á innrás sé raunveruleg. AFP

Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafa undanfarnar vikur sakað Rússa um að skipuleggja innrás í Úkraínu. Rússar tóku völdin á Krímskaga árið 2014 og hafa síðan þá stutt andspyrnuhreyfingar þar í landi sem hafa barist gegn yfirvöldum í Kíev. Þrettán þúsund manns hafa látist í átökunum frá 2014.

Varnarorð ráðherrans

Þrátt fyrir ásakanir um að innrás sé í undirbúningi neita Rússar fyrir það. Varnarmálaráðherra Úkraínu, Oleksiy Reznikov, ávarpaði þingið í Úkraínu í dag og sagði að mikilvægt sé að vera tilbúinn undir átök í lok janúar. Það sé líklegasti tíminn fyrir innrás.

„Möguleikinn á innrás Rússa á stórum skala er raunverulegur,“ sagði hann einnig í ræðu sinni.

Reznikov telur að um 100 þúsund hermenn séu staðsettir nærri landamærunum í þeim hluta Krímskaga sem er undir stjórn Rússa og einnig á þeim svæðum sem lúta stjórn andspyrnuhreyfingarinnar í austur-hluta Úkraínu.

Verja sitt land

 Hermenn í úkraínska hernum segjast tilbúnir undir átök og að innrás Rússa verði mætt af hörku.

„Verkefnið er einfalt; ekki hleypa óvininum inn í landið,“ sagði hermaðurinn Andriy í samtali við AFP fréttaveituna. Annar hermaður bætti þá við; „við erum allir klárir í að stöðva þá. Þetta er landið okkar, við munum verja það fram í rauðan dauðann.“

mbl.is