„Þú sérð ekkert, heyrir ekkert og segir ekkert“

Teikning úr dómsal sem sýnir Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein.
Teikning úr dómsal sem sýnir Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein. AFP

Fyrrverandi starfsmaður Ghislaine Maxwell, sem er fyrrverandi kærasta og samstarfsmaður barnaníðingsins Jeffrey Epstein, bar í dag vitni við aðalmeðferð í máli Maxwell sem fer fram í New York. Hann segir að Maxwell hafi haldið uppi járnaga í glæsihýsi Epsteins á Flórída og sett fjölmargar reglur.

Juan Alessi sagði við aðalmeðferðina að Maxwell hefði sagt við sig að hann mætti ekki horfa í augun á Epstein. Þá sakaði Alessi Maxwell um að hafa látið aka tveimur stúlkum, sem voru undir lögaldri, að húsinu.

Saksóknarar lögðu í dag fram handbók með leiðbeiningum sem starfsmenn, sem unnu í glæsihýsiEpsteins íPalmBeach, áttu að hafa fengið.

Teikning sem sýnir Juan Alessi, sem vann fyrir Maxwell, svara …
Teikning sem sýnir Juan Alessi, sem vann fyrir Maxwell, svara spurningum saksóknara í réttarsal í dag. AFP

„Mundu að þú sérð ekkert, heyrir ekkert og segir ekkert, nema að svara spurningum sem er beint að þér,“ sagði í handbókinni sem telur 58 blaðsíður. Þar var skýrt tekið fram að starfsfólkið mætti aldrei láta neinn vita hvað Epstein eða Maxwell væru að gera eða hvar þau væru stödd.

Þá var einnig að finna langan minnislista yfir atriði sem áttu að liggja fyrir þegar Epstein kæmi í húsið. M.a. að það ætti að vera skammbyssa í skúffu í svefnherbergi hans.

Handbókin er dagsett eftir að Alessi lét af störfum árið 2002. Hann sagði aftur á móti í réttarsal í dag að hann myndi eftir eldri útgáfu sem hefði að geyma svipaðar upplýsingar.

Þá sagðist hann muna eftir að hafa séð tvær ungar stúlkur, sem hann taldi að hefðu verið 14-15 ára gamlar, þar á meðal konu sem er aðeins kölluð Jane við réttarhaldið, en hún bar vitni við aðalmeðferðina í gær. Alessi kveðst hafa hitt Jane fyrst árið 1994 þegar hún kom í heimsókn í glæsihýsið ásamt móður sinni. Þá sagðist hann hafa í eitt skipti sótt hana skólann. Loks sagði Alessi að hann hefði séð Jane ganga um borð í flugvél í Palm Beach með þeim Epstein og Maxwell

Ákæran á hendur Maxwell er í átta liðum, m.a. fyrir mansal. Meint brot áttu að hafa verið framin á árunum 1994-2004. Hún hefur setið á bak við slá og slá frá því hún var handtekin í Bandaríkjunum í fyrra. Maxwell neitar sök en verjendur hennar halda því fram að verið sé að nota hana sem blóraböggul fyrir þá glæpi sem Epstein framdi, en Epstein lést í fangelsi árið 2019.

mbl.is