Biden og Pútín funda á þriðjudag

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimir Putin Rússlandsforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimir Putin Rússlandsforseti.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín forseti Rússlands munu eiga myndbandsfund á þriðjudag vegna aukinnar óvissu í málefnum Úkraínu.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að Bandaríkin búi yfir upplýsingum um að Rússar hyggist gera innrás í Úkraínu. Blinken segir óvíst hvort að lokaákvörðunin hafi verið tekin, en að slík árás yrði „af stórum skala“. 

Rússar hafa neitað ásökununum en sakað Úkraínu um vígbúnað. Yfirvöld í Úkraínu segja að Rússar hafi sent brynvarin ökutæki og yfir 90 þúsund hermenn að landamærunum landanna tveggja. Fleiri hermenn rússneska hersins hafa ekki verið á landamærunum síðan Rússar lögðu undir sig Krímskagann árið 2014. 

Oleks­iy Rezni­kov, varnarmálaráðherra Úkraínu, ávarpaði úkraínska þingið í gær og sagði að líklegasti tíminn fyrir árás væri í lok janúar.  

Á föstudag sagði Biden við fjölmiðla að hann hygðist gera það „afar, afar erfitt“ fyrir Pútín að „gera það sem fólk óttast að hann ætli að gera“.

Bandaríkin, Bretland og ríki Evrópusambandsins hafa boðað mögulegar viðskiptaþvinganir komi til átaka á landamærum Úkraínu og Rússlands. 

mbl.is