Handtóku foreldrana sem höfðu lagt á flótta

James og Jennifer Crumbley.
James og Jennifer Crumbley. AFP

Foreldrar Et­h­an Crumbley, sem myrti fjóra og særði sjö í skotárás í mennta­skóla í Oxford Michigan, hafa verið handteknir eftir að þeir lögðu á flótta. 

Á vef BBC segir að James og Jennifer Crumbley hafi verið handtekinn í kjallara vöruhúss í Detroit-borg. Þau voru óvopnuð en lögreglan hafði fengið ábendingu frá vitni sem sá þau fara inn í húsið.

Parið hafði ekki mætt fyrir dómstól í gær en þau eru kærð fyrir manndráp af gáleysi. Alríkislögreglan bauð í kjölfarið 10 þúsund dollara umbun fyrir upplýsingar sem myndi leiða til handtöku þeirra. 

Voru að „gæta eigin öryggi“

Lögmaður hjónanna segir þau ekki hafa verið að flýja undan lögreglu heldur hafi þau verið að „gæta eigin öryggi“ með því að yfirgefa Oxford. Lögreglan greinir hins vegar frá því að parið hafi tekið 4 þúsund dollara út úr hraðbanka og slökkt á farsímum sínum áður en þau komu til Detroit.

Þau eru sökuð um að hafa hunsað viðvörunarmerki þess að sonur þeirra Ethan ætlaði að hefja skotárás í skólanum en hann er 15 ára gamall. Saksóknarar segja að Ethan hafi notað skotvopn föður síns í árásinni.  

mbl.is