Lést eftir að hafa borðað illa eldaða smalaböku

Kjöthakk í smalabökunni var eldað með vitlausum hætti.
Kjöthakk í smalabökunni var eldað með vitlausum hætti. mbl.is/huntermums

Uppskerukvöldverður kirkju í Northhampshire í Bretlandi endaði illa þegar einn gesturinn lést og 31 veiktist vegna smalaböku. Hún var fyllt með kjöti sem kokkurinn hafði ekki undirbúið með viðeigandi hætti. 

Guardian greinir frá.

Hin 92 ára gamla Elizabeth Neuman, sem var heilbrigð þrátt fyrir háan aldur, kastaði ítrekað upp eftir að hafa lagt sér bökuna til munns. Þá urðu aðrir gestir flestir nokkuð veikir. Þrír af þeim sem mættu sluppu við veikindin, einfaldlega vegna þess að þeir eru grænmetisætur og borðuðu því ekki bökuna. 

Dæmdur fyrir atvikið

Kokkurinn heitir John Croucher hefur nú hlotið fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm vegna atviksins. Hann viðurkenndi að hafa brotið lög um matvæli. 

„Mér finnst leiðinlegt að segja það. Mér finnst mjög leiðinlegt að segja það, en ég var að elda þetta í flýti,“ sagði Croucher, sem hefur starfað við eldamennsku í 20 ár, fyrir dómi. Þá sagðist Croucher vera betri kokkur í dag en hann var þá. Um hefði verið að ræða hræðilegar aðstæður. 

„Ég sé ekki bara eftir þessu, þetta er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Vegna þessa er ég betri kokkur í dag en það er synd að atvikið hafi kostað það sem það gerði.“

Dómarinn í málinu, Sarah Campell, sagði: „Enginn dómur sem ég get kveðið upp jafnast á við þann missi sem fjölskylda hinnar látnu hefur orðið fyrir.“

mbl.is