Swaminathan: Ekki örvænta vegna Ómíkron

Frá flugvelli í Los Angeles í Bandaríkjunum.
Frá flugvelli í Los Angeles í Bandaríkjunum. AFP

Heimsbyggðin þarf ekki að örvænta vegna Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar en ætti þó að undirbúa sig, að sögn Soumyu Swaminathan, yf­ir­manns vís­inda­mála hjá Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­inni. 

Swaminathan segir að staðan nú sé mjög ólík þeirri sem var uppi fyrir ári síðan. 

BBC greinir frá.

Afbrigðið mjög smitandi en margt enn óljóst

Ómíkron hefur nú greinst í um 40 löndum, þar á meðal hérlendis.

Það er enn óljóst hvort þetta afbrigði, sem er mjög stökkbreytt, sé meira smitandi en fyrri afbrigði eða eigi auðveldara með að komast hjá þeirri vörn sem bólusetningar gegn Covid-19 veita. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að það muni taka nokkrar vikur fyrir áreiðanlegar upplýsingar um hegðun afbrigðisins að koma fram. 

Frumniðurstöður rannsókna í Suður-Afríku benda til þess að Ómíkron gæti komist hjá ónæmi gegn Covid-19 að einhverju leyti. Það er þó enn ekki staðfest. 

Swaminathan segir afbrigðið þó mjög smitandi, miðað við nýjustu gögn frá Suður-Afríku. Þá segir hún að afbrigðið gæti orðið ráðandi í smitum á heimsvísu þó það sé erfitt að spá fyrir um það. Sem stendur er Delta-afbrigði veirunnar ábyrgt fyrir 99% smita á heimsvísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert