Beittu táragasi á mótmælendur í Brussel

Mótmælendur líktu aðgerðum yfirvalda við nasisma.
Mótmælendur líktu aðgerðum yfirvalda við nasisma. AFP

Lögregluyfirvöld í Brussel sprautuðu vatni og beittu táragasi á mótmælendur þar ytra í dag. Um átta þúsund manns gengu um borgina og mótmæltu þeim takmörkunum sem eru í gildi í Belgíu. Gengu mótmælendurnir í áttina að höfuðstöðvum Evrópusambandsins þegar lögreglan stöðvaði mótmælin.

Ekki er um að ræða fyrstu mótmælin vegna takmarkana í Brussel en um 35 þúsund mótmælendur söfnuðust saman í síðasta mánuði til þess að mótmæla bólusetningum og takmörkunum.

Í þetta skiptið var hópurinn töluvert minni og lögregluyfirvöld betur undirbúin. Hringtorgið fyrir utan höfuðstöðvar Evrópusambandsins var þá lokað með gaddavír og tók hópur óeirðarlögreglumanna á móti mótmælendum þar.

Bjórdósir og táragas 

Þegar tveir drónar og þyrla flugu yfir mótmælendahópinn köstuðu þeir bjórdósum auk þess að kveikja í flugeldum. Lögreglan svaraði, eins og áður segir, með því að sprauta vatni og beita táragasi.

Mótmælendur skiptust þá í minni hópa og kom til átaka í kjölfar þess. Sumir hverjir báru þá eld að ruslatunnum til að mynda. Tveir lögregluþjónar og fjórir mótmælendur þurftu á spítalainnlögn að halda eftir mótmælin og um tuttugu manns voru handtekin.

Mótmæli víða um álfuna

Óeirðir af þessu tagi hafa skotið uppi kollinum víða um Evrópu undanfarið en ríkisstjórnir víða um álfuna hafa hert takmarkanir til þess að stemma stigu við vexti faraldursins.

Almennt er þá verið að mótmæla kvöðum á almenning svo sem grímunotkun, útgöngubönnum og bólusetningarvottorðum. Á skiltum mótmælenda var til að mynda bólusetningarvottorðum líkt við stjörnuna sem gyðingar voru látnir bera í seinni heimsstyrjöldinni. Á skiltum stóð þá til dæmis; „Covid=skipulagt þjóðarmorð“ og „QR kóðinn er hakakross“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert