Ofbeldi á viðburði umdeilds frambjóðenda

Zemmour heldur ræðu á viðburði sínum í dag.
Zemmour heldur ræðu á viðburði sínum í dag. AFP

Eric Zemmour tilkynnti formlega að hann hyggist bjóða sig fram til embættis forseta Frakklands en forsetakosningarnar fara fram í apríl á næsta ári. Hann tilkynnti um framboðið á viðburði í Villepinte úthverfinu í París og til átaka kom milli stuðningsmanna hans og mótmælenda.

Zemmour er 63 ára gamall rithöfundur og þekktur sjónvarpsmaður. Hann er talinn öfga hægri maður og mátti heyra mikil fagnaðarlæti á viðburðinum í hvert sinn sem hann talaði fyrir því að Frakkar tækju á móti færra flóttafólki og innflytjendum en raunin er nú.

„Það er allt undir, ef ég vinn þá verður það upphafsskrefið í því að endurheimta fallegasta land í heimi,“ sagði Zemmour í ræðu sinni.

Stólum kastað og slegist

Einn þeirra sem mættu á viðburðinn til þess að mótmæla framboði hans reyndi að slá til Zemmour þegar hann gekk inn í salinn. Mótmælandinn var á handtekinn og fjarlægður af vettvangi.

Síðar kom til átaka milli mótmælenda og stuðningsmanna en mótmælendurnir voru klæddir bolum og á þeim stóð „no to racism“ eða „nei við rasisma“. Kastað var stólum í mótmælendur og þeir síðar fjarlægðir af viðburðinum. Sjá mátti blóð á að minnsta kosti tveimur þeirra.

Aline Kremer sem skipulagði mótmælin fyrir hönd samtakanna, „SOS Racisme“, sagði í viðtali við AFP að ætlunin hafi verið að halda „friðsamleg mótmæli“. Það hafi breyst þegar stuðningsmenn Zemmour réðust að mótmælendum.

mbl.is