100 dauðir kettir fundust á heimili

Þessir kettir tengjast fréttinni ekki með beinum hætti.
Þessir kettir tengjast fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Um 100 dauðir kettir fundust á heimili ellilífeyrisþega í suðurhluta Frakklands.

Sjálfboðaliðar dýraverndarsamtaka fengu ábendingu frá frænku 81 árs gamals manns um ketti á heimili hans eftir að hann var fluttur á sjúkrahús í borginni Nice.

Þegar að var komið voru langflestir kattanna dauðir sem þar fundust. Flestir þeirra voru geymdir inni í ílátum úr plasti eða viði, að sögn dagblaðsins Nice-Matin.

Talið er að langflestir þeirra hafi verið dauðir áður en þeir voru settir í ílátin. Talið er að tveir hið minnsta hafi verið lokaðir inni lifandi. 

Auk kattanna, sem fundust bæði í húsinu og í kringum það, fundust einnig leifar af íkornum og rottum ásamt kjálka úr hundi.

Yfir 20 alvarlega vannærðir kettir til viðbótar fundust á lífi í húsinu og voru þeir fluttir til dýralækna eða á fósturheimili.

Leifar eins kattar fundust í stofusófa og hafði hluti hans verið étinn af öðrum köttum.

mbl.is