Ekki bjartsýn á viðræðurnar beri árangur

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna og Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna og Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Rússnesk yfirvöld eru ekki bjartsýn á að viðræður Vladimír Pútíns, forseta Rússlands, og Joes Biden Bandaríkjaforseta muni bera mikinn árangur en leiðtogarnir tveir munu funda á morgun í gegnum fjarfundabúnað til að ræða spennuna sem ríkir við landamæri Úkraínu.

„Það er erfitt að búast við einhverju byltingarkenndu úr þessum viðræðum,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra yfirvalda en bætti við að vonandi  myndu leiðtogarnir tveir ná að koma áhyggjum sínum á framfæri við hvorn annan.

„Þrátt fyrir að samskipti ríkjanna séu nú í dapurlegu ástandi er enn von um endurlífgun þeirra, samræður eru að hefjast um sum málefni.“

Saka Úkraínu um vígbúnað

Bandaríkin hafa undanfarið sakað Rússa um að undirbúa innrás í Úkraínu en mikinn vígbúnað er að finna við landamæri ríkjanna þar sem tugþúsundir rússneskra hermanna er að finna að sögn bandarískra og úkraínskra yfirvalda.

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kveðst einnig hafa undir höndum upplýsingar þess efnis að Rússar séu að undirbúa innrás.

Rússnesk yfirvöld hafa þó vísað ásökunum um slíkt á bug og saka jafnframt Úkraínumenn um að hafa aukið við vígbúnað sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert