Írar fá 135 milljarða Brexit-stuðning

Ljósmynd/Colourbox

Írland mun hljóta 920 milljóna evra fjárstuðning, sem samsvarar um 135 milljörðum kr., úr sérstökum sjóði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en markmiðið er að draga úr þeim áhrifum sem útganga Breta úr ESB hefur haft á Íra. 

Sjóðurinn, Brexit Adjustment Reserve, leiðréttingarforði vegna Brexit, er hugsaður sem stuðningur við öll ríki ESB, en einblínir þó sérstaklega á þau ríki sem hafa orðið hvað verst úti vegna úrsagnar Breta úr ESB. Heildarupphæð sjóðsins nemur 5,4 milljörðum evra. 

Framkvæmdastjórn ESB segir að Írland sé fyrsta ríkið sem nýtur stuðning úr þessum sjóði og sé einnig það ríki sem muni hljóta hæstan stuðning, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins. 

Heildarupphæðin mun skiptast í þrjár greiðslur, en írsk stjórnvöld munu hljóta 361,5 milljónir evra í ár, 276,7 milljónir evra á næsta ári og loks 282,2 milljónir árið 2023.

Elisa Ferreira, framkvæmdastjóri samheldni og umbóta í framkvæmdastjórn ESB, segir að Brexit hafi haft neikvæð áhrif á líf margra og „það eru íbúar á Írlandi sem hafa fundið mest fyrir því“.

„Leiðréttingarforði ESB vegna Brexit stendur fyrir samheldni með þeim esm hafa orðið fyrir mestum áhrifum,“ sagði hún jafnframt og bætti við að enginn yrði skilinn eftir. 

mbl.is
Loka