Átti að finna ungar stúlkur fyrir Epstein

Teikning sem sýnir Ghislaine Maxwell við aðalmeðferðina í dómsal í …
Teikning sem sýnir Ghislaine Maxwell við aðalmeðferðina í dómsal í New York. AFP

Bresk kona sagði við réttarhöldin yfir Ghislaine Maxwell, sem er fyrrverandi kærasta og samstarfskona barnaníðingsins Jeffrey Epstein, að Maxwell hefði beðið sig um að finna sætar og ungar stúlkur fyrir Epstein.

Maxwell, sem er 59 ára gömul, er sökuð um að hafa útvegað Epstein unglingsstúlkur á milli áranna 1994 til 2004. Stúlkur sem Epstein síðan braut gegn. Maxwell neitar sök.

Konan sem bar vitni í gær, og er aðeins nafngreind sem Kate, greindi frá því að hún hefði verið 17 ára gömul þegar hún kynntist Maxwell. Kate sagði ennfremur frá því að Maxwell hefði oft þrýst á hana til að „skemmta sér“.

Kate sagði einnig frá því hvernig Maxwell hefði lagt búning fyrir skólastúlkur á rúm í gestaherbergi í húsi hennar og sagt: „Ég held að það væri gaman fyrir þig að fara með teið til Epsteins í þessum búningi“.

Kate segist hafa farið í búninginn og að Epstein hefði síðan haft við hana samfarir, að því er kemur fram í umfjöllun breska útvarpsins.

Dómshúsið í New York þar sem réttað er í máli …
Dómshúsið í New York þar sem réttað er í máli Maxwells. AFP

Fram kemur að Kate hafi kynnst Maxwell í París þegar hún var unglingur árið 1994. Þar sem hún var yfir kynferðislegum lágmarksaldri (e. age of consent) á umræddum tíma þá hefur dómarinn í málinu tekið það fram við kviðdóminn að ekki væri um ólöglegar kynlífsathafnir að ræða. 

Kate er í dag 44 ára gömul. Hún kveðst hafa heillast af glæsileika og fágun Epsteins. „Hann var afar heillandi [...] allt það sem mig langaði til að vera.“

Kate greindi frá því hvernig Maxwell hefði sagt henni frá Epstein, sem var kærasti hennar, yfir tebolla á heimili sínu í London og hvernig hann hefði unnið að mannúðarmálum og væri mikið fyrir að hjálpa ungu fólki. Kate var þá að hefja tónlistarferil og hún kvaðst spennt yfir að hafa eignast nýjan vin. Nokkrum vikum síðar hitti hún Epstein fyrst. Hún sagði að Maxwell hefði hvatt sig til að gefa honum nudd sem leiddi til kynlífs.

Kate sagði að Maxwell hefði oft snúið samtölum upp í kynferðislegt tal og lýsti hún Epstein sem kröfuhörðum manni sem yrði að stunda kynlíf þrisvar sinnum á dag. Maxwell hefði einnig spurt Kate hvort hún vissi um fleiri ungar stúlkur sem gætu aðstoðað við að fullnægja þörfum Epsteins.

Kate kveðst hafa haldið samskiptum við Epstein allt fram á fertugsaldur af ótta við það sem gæti gerst ef hún gerði það ekki.

Tvær konur til viðbótar eiga eftir að gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins sem fer fram í New York.

Í síðustu viku gaf kona, sem var aðeins nefnd á nafn sem Jane, skýrslu. Hún grét þegar hún lýsti því þegar Epstein braut gegn sér kynferðislega þegar hún var aðeins 14 ára gömul. Hún bætti við að Maxwell hefði stundum tekið þátt í þessum brotum og hefði hagað sér eins og þetta væri ekkert mál.

Maxwell hefur verið í fangelsi frá því hún var handtekin í Bandaríkjunum í fyrra. Verði hún fundin sek gæti hún átt yfir 80 ára fangelsi yfir höfði sér.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert