Átti að vera í sóttkví en fór á djammið

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands.
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands. AFP

Töluverð gagnrýni hefur beinst að Sönnu Marín, forsætisráðherra Finnlands í dag, eftir að það kom í ljós að hún hafi skemmt sér fram eftir nóttu á skemmtistöðum þar í landi um síðustu helgi þrátt fyrir að hún hafi umgengist smitaðan einstakling.

Sanna baðst afsökunar á háttsemi sinni í gær í kjölfar þess að fjölmiðlar þar ytra birtu myndir af henni á næturklúbbi í Helsinki klukkan fjögur aðfaranótt sunnudags. Var þetta þá einungis nokkrum klukkutímum eftir að Pekka Haavisto utanríkisráðherra Finnlands hafði greinst með veiruna.

Sanna sagði í tilkynningu á Facebook síðu sinni að hún hafi farið út að borða og síðan út á lífið með eiginmanni sínum og vinum. Henni hafi verið sagt að sóttvarnaráðstafanir gerðu ekki ráð fyrir því að hún þyrfti að fara í sóttkví þrátt fyrir að hafa umgengist smitaðan einstakling.

„Ég hefði átt að meta málið betur og athuga aftur hver fyrirmælin voru. Mér þykir verulega leitt að hafa ekki áttað mig á þessu,“ bætti hún við.

Veisluhöld til vandræða

Þetta klúður kemur á slæmum tímapunkti fyrir forsætisráðherrann, en Finnum hefur almennt gengið vel í baráttunni við veiruna, samanborið við nágrannaþjóðir hið minnsta. Faraldurinn er hins vegar nú í uppsveiflu þar í landi, og er nýgengi smita þar 308 á hverja 100 þúsund íbúa.

Sanna Marin varð yngsti forsætisráðherra heims árið 2019 en hún er einungis 36 ára gömul. Hún hefur áður verið gagnrýnd fyrir veisluhöld og myndbirtingar á samfélagsmiðlum þar sem hún virðist kynna tískuvarning, eins og áhrifavaldar gjarnan gera.

Áður hefur hún sagt við fjölmiðla að hún sé fulltrúi ungu kynslóðarinnar og að: „Já það mun endurspeglast í störfum mínum og hvernig ég haga mínu lífi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert