Dauðsföll ekki fleiri þrátt fyrir metfjölda smita

Um fjórðungur allra sýna sem tekin eru í Suður-Afríku reynist …
Um fjórðungur allra sýna sem tekin eru í Suður-Afríku reynist jákvæður. AFP

Vísindamenn í Suður-Afríku, þar sem hið nýja Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hefur breiðst hvað hraðast út, segja að fyrstu niðurstöður rannsókna bendi til þess að nýja afbrigðið valdi vægari einkennum en fyrri afbrigði. Það sé hins vegar ekki hægt að fullyrða að þannig verði það áfram. 

Covid-sjúklingar nú virðist vera minna veikir en áður og að staðan sé þannig að flestir covid-smitaðir á sjúkrahúsum leggist inn vegna annarra veikinda, en sýni lítil sem engin einkenni covid-19. Færri þurfi á öndunaraðstoð að halda og sjúkrahúsdvöl sé styttri en áður.

Vísindamenn vilja þó ekki draga of miklar ályktanir strax, hvorki af vísbendingum um góðar fréttir af vægari einkennum, né vísbendingum um slæmar fréttir um að fyrra smit veiti ekki vörn gegn Ómíkron-afbrigðinu. Afbrigðið hafi aðeins uppgötvast í síðasta mánuði og að fleiri rannsóknir séu nauðsynlegar áður en hægt er að segja eitthvað með vissu. Þar fyrir utan sé kórónuveiran þannig að áhrif hennar komi ekki alltaf fram alveg strax. Sjúkrahúsinnlagnir og dauðsföll komi oft ekki fram fyrr en undir lok sjúkdómsgöngunnar. New York Times greinir frá.

Grípa til aðgerða vegna óvissu

Dr. Emily S. Gurley, faraldsfræðingur við Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health, er ein þeirra sem segir vísbendingar um að nýja afbrigðið sé ekki eins alvarlegt. Það kæmi henni ekki á óvart ef það væri raunin, en hún telji þó ekki tímabært að draga neinar ályktanir.

Vegna skorts á upplýsingum um eiginleika og hegðun Ómíkron-afbrigðisins hafa yfirvöld víða um heim gripið til hertra sóttvarnaraðgerða og ferðatakmarkana til að sporna við frekari útbreiðslu veirunnar. Yfirvöld á Íslandi hafa til að mynda ákveðið slaka ekki á sóttvarnaraðgerðum fyrr en meira er vitað um afbrigðið.

Þeir leiðtogar sem sakaðir hafa verið um að grípa of seint til aðgerða í fyrri bylgjum hafa brugðist hraðar við núna, en nýja afbrigðið hefur greinst í yfir þrjátíu löndum, í sex heimsálfum. 

Sviðsmynd covid-deildarinnar önnur

Líkt og fram hefur komið virðist nýja afbrigðið dreifa sér hraðar en fyrri afbrigði. Í Suður-Afríku voru aðeins að greinast um 300 smit á dag fyrir um mánuði síðan, en á föstudag og laugardag voru smitin komin upp í um 16 þúsund á dag. Um er að ræða smittölur sem ekki hafa sést í faraldrinum til þessa í Suður-Afríku en allt að fjórðungur allra covid-prófa reynist jákvæður. Fyrir tveimur vikum voru aðeins um tvö prósent sýna jákvæð.

Skýrsla lækna við Steve Biko Academic og Tshwane stofnunina í Pretoria í Suður-Afríku, gefur einna sterkustu vísbendingar sem hafa sést um að Ómíkron-afbrigðið sé vægara en önnur. Einn höfunda skýrslunnar, Dr. Fareed Abdullah segir þó, líkt og Gurley, nauðsynlegt að fara varlega í draga ályktanir.

Færri virðast þurfa öndundaraðstoð en áður.
Færri virðast þurfa öndundaraðstoð en áður. AFP

Hann skoðaði 42 sjúklinga sem smitaðir voru af afbrigðinu á fimmtudaginn í síðustu viku, en 29 þeirra, eða um 70 prósent, þurftu enga öndunaraðstoð. Af þeim þrettán sem þurftu öndunaraðstoð voru fjórir sem þurftu hana vegna annarra veikinda en covid-19. Aðeins einn af þessum 42 sjúklingum var á gjörgæslu. Flestir höfðu verið lagðir inn vegna annarra veikinda en greindust smitaðir við allsherjar skimun.

Dr. Abdullah sagði í viðtali að hann hefði gengið inn á covid deild á sjúkrahúsi og séð þar allt aðra sviðsmynd en á fyrri stigum faraldursins, þegar píptí í öndunarvélum í hverjum horni. „Aðeins fjórir sjúklingar af sautján þurftu súrefni. Það er ekki covid deild í mínum huga. Það er venjuleg deild.“

Sjúkrahúslegan styttri en áður 

Abdullah skoðaði einnig 166 covid-sjúklinga sem þurftu að leggjast inn á Biko-Tshwane stofnunina frá 14. til 29. nóvember og komst að því að meðallengd sjúkrahúsdvalar þeirra voru 2,8 dagar og innan við sjö prósent þeirra létust. Á síðustu átján mánuðum hefur meðallengd sjúkrahúsdvalar covid-sjúklinga hins vegar verið 8,5 dagar og um sautján prósent þeirra látist.

Þá þótti það líka athyglisvert að 80 prósent af þessum 166 sjúklingum voru undir fimmtugu, en þannig virðist sjúklingahópurinn víða vera samsettur. Sjúklingar sem þurftu að leggjast inn á sjúkrahús í fyrri bylgjum hafi yfirleitt verið eldri. En það gæti orsakast af að hlutfallslega fleiri yfir fimmtugu eru bólusettir í Suður-Afríku. 

Eitt a því sem enn er þó óljóst varðandi þetta nýja afbrigði, að mati Abdullah, er það hvort bóluefnið veiti jafn mikla vörn gegn Ómíkron og fyrri afbrigðum. 

Yfirvöld víða um heim hafa hert aðgerðir vegna óvissu um …
Yfirvöld víða um heim hafa hert aðgerðir vegna óvissu um Ómíkron-afbrigðið. AFP

Hann vill fara varlega í sakirnar í að fullyrða eitthvað um hegðun Ómíkron-afbrigðisins strax enda enn tiltölulegar fáir sjúklingar sem hafa verið rannsakaðir og ekki er vitað með vissu hver stór hluti þeirra var í raun með afbrigðið. Það liggur þó fyrir að um þrír fjórðu allra smita í Suður-Afríku í síðustu viku voru af völdum Ómíkron, samkvæmt upplýsingum frá þarlendum yfirvöldum. Þá liggur einnig fyrir að þrátt fyrir mikla fjölgun smita í landinu þá hefur dauðsföllum ekki fjölgað.

Hraðari útbreiðsla gæti núllað út vægari einkenni 

Dr. Gurley hjá Johns Hopkins sagðist líka taka eftir því að sjúkdómurinn hefði áhrif á aðra hópa en áður. Faraldurinn hefði nú staðið yfir í tvö ár og fleiri væru orðnir ónæmir gegn veirunni, bæði vegna fyrra smits og bólusetningar. Það gæti verið ástæðan fyrir því að við sæjum vægari tilfelli nú.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvernig á að lesa það út úr raðgreiningunni hvernig þetta afbrigði mun haga sér. Við erum að fá frekari upplýsingar frá Suður-Afríku þar sem ákveðinn fjöldi hefur annað hvort fengið veiruna eða verið bólusettur," sagði Gurley.

Dr. Maria D. van Kerkhove hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) sagði í viðtali við CBS á sunnudag að þrátt fyrir að færri tilfelli af Ómíkron væru alvarlegs eðlis, þá gæti það núllast út með hraðari útbreiðslu afbrigðisins, sem gæti leitt til fleiri sjúkrahúsinnlagna og dauðsfalla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert