Eldur kom upp í fangelsi

Fangelsið var yfirfullt þegar eldurinn braust út.
Fangelsið var yfirfullt þegar eldurinn braust út. AFP

Eldur kom upp í fangelsi í borginni Gitega í Búrúndí í morgun en óttast er að mannfall hafi orðið mikið þar sem stór hluti fanga sat fastur inni í klefum sínum.

Fangelsið var þétt setið þegar eldurinn braust út en samkvæmt skrám stofnunarinnar voru þar um 1.500 fangar undir lok nóvember, sem er tæplega fjórfalt meira en leyfilegur fjöldi fanga er, sem er 400. Yfirvöld hafa ekkert viljað tjá sig um atvikið.

Fjöldi látinna liggur ekki fyrir

Að minnsta kosti 20 hafa verið fluttir á sjúkrahús til að leita aðhlynningar en fjöldi látinna liggur ekki fyrir.

„Við byrjuðum að öskra að við værum að fara að brenna lifandi þegar við sáum logana rísa hátt upp en lögreglan neitaði að opna dyrnar á klefunum, sagði að þetta væru fyrirskipanirnar sem þeir hefðu fengið,“ sagði einn fanganna í viðtali við fréttastofu AFP. Maðurinn kvaðst ekki gera sér grein fyrir hvernig hann slapp en ljóst er að margir fangar hafa brunnið inni.

Slökkviliðsbíll kom tveimur tímum seinna

Fangelsið er illa leikið eftir eldinn en viðbragðsaðilar voru frekar seinir á vettvang, t.d. kom slökkviliðsbíll ekki fyrr en tveimur tímum eftir að eldurinn kom upp.

Þetta mun ekki vera í fyrsta skiptið sem eldur brýst út í fangelsinu en það gerðist síðast í ágúst á þessu ári. Það atvik var þó ekki mannskætt.

mbl.is