Segja Frakka hafa farið í mannavillt í handtöku

Sádiarabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var drepinn á ræðismannaskrifstofu heimalands síns …
Sádiarabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var drepinn á ræðismannaskrifstofu heimalands síns í Tyrklandi. AFP

Frönsk yfirvöld handtóku í dag mann sem þau gruna um að hafa tekið þátt í morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi árið 2018. Khashoggi var myrtur í sendiráði Sádi-Arabíu í Istanbúl en Sádi-Arabar segja þann mann sem Frakkar hafi nú í haldi ekki tengjast málinu á nokkurn hátt.

Sá grunaði heitir heitir Khalid Alotaibi og var handtekinn á Charles de Gaulle flugvellinum. Heimildamaður AFP-fréttaveitunnar innan Sádi-Arabíu segir Khalid Alotaibi algengt nafn og hinn raunverulegi Alotaibi sé nú þegar á bak við lás og slá. 

Fagnar handtökunni 

Khashoggi var gagnrýninn á stjórnvöld í Sádi-Arabíu og þá sérstaklega í garð krónprinsins Mohammed bin Salman. Hann flúði ríkið árið 2017 og skrifaði reglulegar greinar í Washington Post. 

Síðast sást til Khashoggi úr öryggismyndavélum ganga inn í ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl til að sækja eyðublöð á meðan unnusta hans beið fyrir utan. Erindi hans í sendiráðið voru eyðublöð vegna fyrirhugaðs hjónabands þeirra tveggja. 

Unnusta hans fagnaði í kvöld fregnum af handtöku hins grunaða og sagði það stórt skref í átt að réttlæti. „Ég er búin að bíða of lengi, núna loksins á fyrsta handtakan sér stað,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Hatice Cengiz.

Hatice Cengiz, unnusta Jamal Khashoggi.
Hatice Cengiz, unnusta Jamal Khashoggi. AFP

Eiga von á því að honum verði sleppt undir eins

Sendiráð Sádi-Arabíu í París sagði hins vegar Alotaibi ekki tengjast málinu á nokkrun hátt og áttu von á því að honum yrði sleppt sem fyrst. Í yfirlýsingu frá sendiráðinu sagði að dómstólar í Sádi-Arabíu hefðu nú þegar dæmt alla þá sem áttu hlut í máli til refsingar. 

Sádi-Arabískir dómstólar sneru fimm dauðadómum í september í fyrra vegna málsins í réttarhöldum sem fóru fram fyrir luktum dyrum. Fimmmenningarnir voru dæmdir til tuttugu ára fangelsisvistar. 

mbl.is