Tveir særðust í enn einni skotárásinni

Enginn hefur enn verið handtekinn vegna árásarinnar í nótt.
Enginn hefur enn verið handtekinn vegna árásarinnar í nótt. Ljósmynd/Danska lögreglan

Tveir menn særðust í skotárás í Herlev-hverfi Kaupmannahafnar í nótt. Lögregla þar í borg greinir frá þessu í yfirlýsingu sinni en gefur ekki nánar út hver líðan mannanna er.

Í frétt danska ríkisútvarpsins segir að engir hafi enn verið handteknir vegna málsins. Síðustu sex daga hafa fleiri særst í skotárásum í Kaupmannahöfn. Tveir eru látnir.

Of snemmt er að segja hvort árásirnar tengjast, að sögn lögregluyfirvalda, en til rannsóknar er hvort aðrar þrjár samskonar árásir undanfarna daga tengist.

Yfirvöld í Danmörku vita þó til þess að tvö mismunandi gengi eigi nú í átökum, NNV annars vegar og Satudarah MC hins vegar.

mbl.is