Æðsti herforingi Indlands fórst í þyrluslysi

Slökkviliðismenn standa við þyrluna sem gjöreyðilagðist.
Slökkviliðismenn standa við þyrluna sem gjöreyðilagðist. AFP

Æðsti herforingi Indlands, Bipin Rawat, fórst þegar þyrla brotlenti í morgun. Slysið átti sér stað í fylkinu Tamil Nadu á Indlandi samkvæmt upplýsingum frá flughernum. BBC greinir frá.

Rawat, eiginkona hans og ellefu aðrir létust þegar Mi-17V5 þyrla brotlendi í hæðunum nærri borginni Coonor. Aðeins einn farþeganna lifði slysið af og liggur hann slasaður á spítala.

Rawat var fyrstur manna skipaður í nýtt embætti yfirmanns varnarmála Indlands í janúar 2019 en þá var herinn sameinaður bæði flughernum og sjóhernum.

Bipin Rawat.
Bipin Rawat. AFP

Rannsókn á slysinu fyrirskipuð

Indverski flugherinn segist hafa fyrirskipað rannsókn á slysinu sem varð í þokuveðri. Öryggisnefnd ríkistjórnarinnar mun einnig halda neyðarfund með forsætisráðherranum Narendra Modi.

Modi sagði á Twitter að Indland myndi aldrei gleyma framúrskarandi þjónustu Rawat. „Hann var sannur ættjarðarvinur og lagði mikið af mörkum til að nútímavæða herinn og öryggisbúnað hans. Innsýn hans og sjónarmið um stefnumótandi málefni voru framúrskarandi. Fráfall hans hefur hryggt mig mjög," skrifaði hann. 

Myndir frá slysstað sýna þykkja reykjarstróka koma frá þyrlunni og má sjá heimamenn reyna að slökkva eldinn.

„Ég sá þyrluna koma niður... hún rakst á eitt tré og það kviknaði í henni,“ sagði Krishnaswamy, sem býr í grennd við slysstað, við The News Minute. „Það kom upp reykjarmökkur þegar ég hljóp að svæðinu. Á nokkrum mínútum var eldurinn hærri en húsið mitt.“

Heimamenn bera lík eins farþegans frá slysstað.
Heimamenn bera lík eins farþegans frá slysstað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert