Auðkýfingi gert að skila stolnum fornmunum

Michael Steinhardt, sem er áttræður, hefur rekið vogunarsjóð á Manhattan …
Michael Steinhardt, sem er áttræður, hefur rekið vogunarsjóð á Manhattan í New York. AFP

Þekktur bandarískur listaverkasafnari og auðkýfingur hefur skilað 180 listaverkum og fornmunum eftir að það kom í ljós að um þýfi var að ræða. Verkin eru metin á um 70 milljónir dala, eða sem samsvarar um 9 milljörðum kr. Nokkrir munir voru m.a. frá tímum forngrikkja.

Talsmenn ákæruvaldsins á Manhattan í New York greindu frá þessu í fyrradag. Fram kemur að hinn áttræði auðjöfur, Michael Steinhardt, verði ekki ákærður í tengslum við málið að svo komnu máli. Honum er aftur á móti meinað fyrir lífstíð að kaupa fornmuni á löglegum mörkuðum þar sem listaverk og fornmunir ganga kaupum og sölum.

Á meðal þýfisins var grískt drykkjaílát, sem lítur út eins og dádýrshöfuð, sem er frá 400 fyrir Krist og metið á 3,5 milljónir dala. Einnig grísk skríni sem var notað við útfarir, sem talið er að hafi verið smíðað 1.400 til 1.200 fyrir krist og er metið á milljónir dala.

Rannsóknin stóð yfir í mörg ár og fram kemur í yfirlýsingu sem Cyrus Vance, yfirmaður dómsmála í ríkinu, sendi frá sér, að Steinhardt hafi verið mjög áfram um að komast yfir stolna muni án þess að kæra sig nokkuð um hvort hann væri að fara að lögum eður ei. Þetta hafi staðið yfir í marga áratugi. Hann hafi einnig kært sig kollóttan um uppruna verkanna sem hann keypti og seldi og hvaða menningarskaða athafnir hans hafa valdið.

Vance segir að auðæfi Steinhardt, sem stýrði vogunarsjóði á Manhattan, séu metin á 1,2 milljarða dala, eða sem jafngildir um 155 milljörðum kr. Í yfirlýsingu Vance segir einnig að Steinhardt hafi farið yfir öll mörk, bæði siðferðileg og landfræðileg, í samskiptum sínum við glæpahópa í undirheimum þar sem viðskipti eru stundum með fornmuni og listaverk.

Lögreglumenn hafa á undanförnum árum framkvæmt húsleitir á skrifstofum og á heimili Steinhardt í New York. Það var lykilatriði hjá Vance að finna öll stolin verk og koma þeim aftur í réttar hendur, en um er að ræða verk sem var stolið af listasöfnum, einkasöfnum eða frá uppboðshúsum, m.a. í Líbanon, Pakistan og á Ítalíu.

Steinhardt hefur unnið að mannúðarmálum og hefur m.a. stutt New York-háskóla og Metropolitan-listasafnið með fjárframlögum, en safnið hefur m.a. nefnt sýningarsal á höfuðið á Steinhardt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert