Mikil rigning ástæða eldgossins

Eldfjallið Semeru hóf að gjósa á laugardaginn var.
Eldfjallið Semeru hóf að gjósa á laugardaginn var. AFP

Eldgos eru ekki fátíð á eyjunni Jövu í Indónesíu enda situr landið á svokölluðum eldhring (e. Ring of fire) sem veldur því jarðskjálftar og eldgos eru tíð. Eldgosið í eldfjallinu Semeru síðasta laugardag var þó af öðrum toga, að því er kemur fram á vef CNN.

Eftir margra daga rigningu veðraðist smám saman hraunhvelfing eldfjallsins og úr varð einhvers konar „hvelfingarskriða“ sem indónesískir eldfjallafræðingar telja að hafi komið eldgosinu af stað.

„Byggt á myndum og gögnum getum við borið saman stærð hvelfingarinnar fyrir og eftir gosið 4. desember. Við getum séð að stór hluti af rúmmáli hvelfingarinnar tapaðist eftir mikla rigningu þann dag,“ sagði Edo Budi Lelone hjá Orku- og auðlindaráðuneyti Indónesíu.

Hraunhvelfingar getur verið óstöðugar og hrunið af ýmsum ástæðum, en í æ meira mæli hefur verið talið að rigning geti verið ein þessara ástæða.

Loftslagsbreytingar áhyggjuefni í þessu samhengi

Hlutverk rigningarinnar í þessu tilviki hefur vakið upp spurningar um hvort loftslagsbreytingar geti leitt til tíðari eldgosa af þessu tagi. Það er áhyggjuefni, vegna þess að eldgos sem verða þegar hraunhvelfingar hrynja hafa tilhneigingu til að vera sterkari og eyðileggja meira en aðrar tegundir, sögðu vísindamenn við fréttastofu CNN.

Slík hraunrennsli geta oft verið á 10 til 100 kílómetra hraða á klukkustund og því ómögulegt að hlaupa frá þeim.

Fleiri en 30 manns fórust í gosinu um helgina og leitarmenn leita að tugum til viðbótar sem enn er saknað. Þá skemmdust þúsundir bygginga.

Margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir eldgosið á …
Margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir eldgosið á laugardaginn. AFP

Kraftur eldgossins var meiri gengur og gerist í Semeru. Eldfjallið skaut ösku um 15 kílómetra upp í loftið, en venjulega fer askan aðeins hundruð metra.

Spáð er að áframhaldandi hlýnun jarðar muni leiða til öfgakenndra rigninga víða um heim, sem vekur áhyggjur af því að þessi stærri eldgos geti komið með litlum eða engum fyrirvara.

Segir í umfjöllun CNN að vísindamenn viti ekki fyrir víst að þetta muni gerast en að fleiri hafi spurt þessarar spurningar síðan árið 2018, þegar Kilauea eldfjallið á Hawaii gaus eftir margra daga úrkomu.

Eldfjallið Semeru.
Eldfjallið Semeru. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert