Örvunarskammtur Pfizer verndi vel gegn Ómíkron

Sprauta fyllt með bóluefni Pfizer.
Sprauta fyllt með bóluefni Pfizer. AFP

Þrír skammtar af bóluefni Pfizer eru líklegir til að veita góða vernd gegn Ómíkron-afbrigðinu samkvæmt rannsókn lyfjarisans. Guardian greinir frá.

Í tilkynningu frá Pfizer um virkni bóluefnis fyrirtækisins gegn Ómíkron-afbrigðinu segir að tveir bóluefnaskammtar veiti töluvert verri vörn gegn afbrigðinu en þrír skammtar, sem veiti svipaða vörn og tveir skammtar veittu gegn upprunalegu veirunni.  

Bóluefnaframleiðandinn sagðist þó myndu halda áfram að þróa nýtt bóluefni og muni það verða framleitt fyrir mars 2022 ef þess gerðist þörf.

Niðurstöðurnar eru í stórum dráttum í samræmi við bráðabirgðarannsókn sem gefin var út af Heilbrigðisrannsóknastofnun Afríku (Africa Health Research Institute), sem sýnir að Ómíkron-afbrigðið getur sloppið undan tveimur skömmtum af bóluefni Pfizer.

Núverandi bóluefni verji gegn alvarlegum veikindum

„Flestir sérfræðingar eru þó sammála um að núverandi bóluefni muni enn verja gegn alvarlegum veikindum og dauða af völdum Ómíkrón-afbrigðisins. Það er því mikilvægt að allir séu bólusettir,“ sagði Prófessor Willem Hanekom framkvæmdastjóri stofnunarinnar.

Albert Bourla forstjóri Pfizer sagði á blaðamannfundi að það að tryggja að sem flestir væru bólusettir með fyrstu tveimur skömmtunum og örvunarskammti af bóluefninu væri besta leiðin til að koma í veg fyrir nýja bylgju faraldursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina