Telur Instagram geta hjálpað ungmennum

Adam Mosseri, forstjóri Instagram.
Adam Mosseri, forstjóri Instagram. AFP

Adam Mosseri, framkvæmdastjóri Instagram reyndi að mála rósrauða mynd af samfélasmiðlinum og umdeildum áhrifum hans á ungt fólk í vitnisburði sínum fyrir bandaríska þinginu í dag.

Stangast á við eigin rannsóknir fyrirtækisins

Hélt hann því fram að miðillinn gæti raunar hjálpað unglingum í vanda, þvert á það sem greint er frá í gagnaleka fyrirtækisins um neikvæð áhrif miðilsins á andlega- og líkamlega heilsu ungs fólks, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

„Stundum fer ungt fólk á samfélagsmiðla þegar það er að reyna takast á við erfiða hluti í sínu lífi. Ég tel að miðillinn geti hjálpað mörgum sem eru í þeirri stöðu. Rannsóknir okkar hafa bent til þess,“ sagði Mosseri í skriflegri yfirlýsingu.

Á sama tíma reyna forsvarsmenn Meta, áður Facebook að slökkva elda í kjölfar gagnaleka uppljóstrarans Frances Haugen, fyrrum starfsmanns fyrirtækisins, sem sýndi fram á skaðsemi miðlanna, frá árinu 2020.

Í gagnalekanum var að finna fjölda rannsókna sem fyrirtækin framkvæmdu sjálf í þessum efnum sem þýðir að forsvarsmenn þeirra voru fullmeðvitaðir um skaðsemi miðlanna.

Segja niðurstöðurnar hafa verið misskilnar

Forsvarsmenn Facebook, nú Meta, hafa harðneitað ásökunum á hendur fyrirtækisins og bera það fyrir sig að niðurstöður rannsókna þeirra hafi verið misskilnar.

Öldungarþingmennirnir Richard Blumenthal og Marsha Blackburn leiða vitnisburðinn þar sem áhrif samfélagsmiðla á sjálfsmynd ungmenna er til rannsóknar.

„Það þýðir ekkert hálfkák í þessum efnum. Instagram verður að koma með áþreifanlegar lausnir til að bæta öryggi og gagnaöryggi,“ skrifaði Blackburn í Twitter-færslu fyrir vitnisburðinn.

Facebook hefur þó risið upp úr öskunni áður, t.d. eftir hneykslismálið sem varðaði breska ráðgjafafyrirtækið Cambridge Analytica, sem beitti blekkingum til að komast yfir persónuupplýsingar milljóna Facebooknotenda. Þær upplýsingar hafi síðan, að því er haldið hefur verið fram, verið notaðar til að hafa áhrif á kjósendur í bandarísku forsetakosningunum árið 2016.

Þegar það komst upp fór Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, persónulega til Washington-borgar til að biðjast afsökunar og samþykkti fyrirtækið að greiða 5 milljarða bandaríkjadali í sáttargreiðslu til bandarískra eftirlitsaðila vegna málsins.

Face­book hef­ur ákveðið hætta við þróun á nýrri út­gáfu af In­sta­gram fyr­ir börn yngri en 13 ára. Ástæðan fyr­ir því er mik­il gagn­rýni sem verk­efnið hef­ur sætt.

Instagram gaf svo út tilkynningu í gærkvöldi þar sem ungu fólki var ráðlagt að taka sér hlé frá samfélagsmiðlinum sé það að eyða of miklum tíma inni á honum.

Tilkynningin vakti grunsemdir hjá löggjöfum, sem töldu hana tilraun til þess að afvegaleiða vitnisburðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert